10 ára með athyglisbrest

Spurning:

Sæl

Ég á tíu ára gamla dóttir sem hefur verið greind með athyglisbrest. Henni hefur frá upphafi gengið frekar illa í skóla. Hún er ekki orðin læs þ.e. getur t.d. ekki lesið texta á sjónvarpi þótt hún sé stautandi. Stafsetning hjá henni er mjög slæm og allur texti í belg og biðu og án bila milli orða. Stærðfræðin gengur einnig illa. Útkoma hennar úr samræmdu prófunum í 4 bekk var mjög slæm þar kom hún út í innan við 3% lægstu á landinu í stærðfræði og innan við 25% lægstu í íslensku.

Þar sem hún er stillt og þæg og til fyrirmyndar varðandi hegðun í skóla hefur henni kannski ekki verið gefinn mikill gaumur.

Eftir að hafa ítrekað farið fram á aðstoð henni til handa í skóla brugðum við foreldrarnir á það ráð að láta greina hana á stofu hjá sálfræðingi. Þrátt fyrir formlega greiningu (sem skilað var til skólans á formlegum fundi) og lélegt gengi í skólanum er ekki viðlit að hún fái nokkra auka aðstoð í skóla.

Það sem við höfum gert var síðan nákvæmlega lýst í svari frá þér hér að neðan. Kannski að því undanskildu að við erum ekki ennþá komin að ósköpunum.

„Til að hjálpa þeim reyna foreldrar oftast nær að verja meiri tíma til að lesa fyrir þau og vinna með þeim. Það gengur misvel og sá tími sem sum börn nota til heimanámsins er margfaldur á við það sem almennt gerist og miðað er við sem daglegan vinnutíma. Á heimilunum eru öll kvöld og allar helgar undirlagðar heimanáminu sem verður áþján á allt heimilislífið. Við þetta skapast sá vítahringur að barnið kemur í skólann næsta dag án þess að hafa lokið heimavinnunni. Kennarinn heldur áfram með námsefnið, en barnið ræður ekki við nýju verkefnin sem lögð eru fyrir í tímanum og fer heim með þau óunnin þannig að þau bætast ofan á þann hlaða óleystra verkefna sem fyrir er. Þetta endar náttúrlega bara á einn veg – með ósköpum.”

Mín spurning er eiginlega hvað er til ráða. Hvaða leiðir eru færar til að dóttir mín fái þá aðstoð sem hún þarf á að halda. Hvert er hægt að leita?

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrirspurnina.

Því miður er dæmi dóttur þinnar ekki einstakt. Margt virðist einnig benda til þess að stúlkur sem glíma við námsvanda af þeim toga sem þú lýsir „leynist” lengur en strákar. Þær láta fara sem minnst fyrir sér, en hegðun strákanna verður frekar illþolanleg sem kallar á athygli hinna fullorðnu til ýmissa aðgerða. Þegar barni gengur ekki sem skyldi í skólanum, þá reynum við oftast að skýra það á ýmsan hátt, t.d. með áhugaleysi og lélegri ástundun, vandamálum á heimili, slæmum félagsskap eða misþroska að einhverju tagi. Og síðan þegar við höfum fengið „skýringu” sem við sættum okkur við þá heldur lífið yfirleitt bara áfram sinn vanagang. Nú getur þetta vissulega stundum allt saman verið tilfellið. En það breytir því ekki, að ef okkur tekst ekki að kenna barni með þeim aðferðum sem við notum, þá er ekki nema um eitt að ræða og það er að breyta um aðferð. Þetta gildir fyrir alla. Með öðrum orðum sagt, þær aðferðir sem kennarinn beitir í kennslu og bekkjarstjórnun geta skipt sköpum um að mál barna sem glíma við einhvern vanda í námi- og/eða aðlögun, flytjist ekki lítið eða óunnin beint út í heilbrigðis- og félagskerfið. Það brennur því á okkur að hlúð sé sem allra, allra best að menntun kennara, vinnuaðstæðum þeirra og starfsþróun.

Réttur dóttur þinnar er sá að henni ber að fá kennslu við hæfi. Þ.e. að hún nái valdi á grundvallarverkfærunum lestri, skrift og reikningi og geti beitt þeim af öryggi og hraða við margvísleg samsett viðfangsefni, hvort sem þau eru henni þekkt eða framandi. Í getublönduðum bekk þar sem aðeins er einn kennari, er þetta þó meira en að segja það. Með hinum nýju og breyttu kröfum sem nú eru gerðar til skólastjórnenda og kennara og með auknum aðgangi foreldra að skólastarfinu, skiptir þétt samstarf þeirra miklu máli. Sama er að segja um aðgang að ráðgjöf og stuðningi við heimilin og samræmda og skilvirka stoðþjónustu skólanna.

Í lýsingunni á dóttur þinni eru ýmsar vísbendingar um að hún glími við leshömlun af einhverju tagi. Nú veit ég ekki hvar þið búið á landinu, en ef sérkennari starfar í skólanum þar sem dóttir þín er, þá sýnist mér að ekki sé eftir neinu að bíða með að þið óskið eftir því við skólann að sérkennarinn lesgreini dóttur þína og veiti kennaranum hennar og ykkur ráðgjöf um lesefni, kennsluaðferð og aðra framkvæmd í framhaldinu. Nú er almennt gífurlegt álag á sérkennurum og verið getur að vegna þess eða af öðrum ástæðum, þá gangi þetta ekki. Þá vil ég benda þér á Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands. Síminn þar er 563 38 68. Þú getur pantað lesgreiningu fyrir hana þar. En mér skilst að þar sé langur biðlisti.

Greininguna þarf að greiða. Þið getið gert það sjálf, en fræðsluyfirvöldum í því sveitarfélagi sem þið búið ber að gera &thorn
;að og þá þarf þetta ferli að fara í gegn um skólann. Ég mæli með því að þið reynið það frekar, því þá verður formlegur skilafundur í skólanum með ykkur og kennaranum þar sem kennarinn og þið fáið nákvæmar leiðbeiningar og ráðgjöf um næstu skref og áframhaldið.

Ég vona að þessi ráðgjöf komi ykkur að gagni og með lesgreiningunni, góðri kennsluráðgjöf og klæðskerasniðinni færniþjálfun, eigi dóttir þín eftir að eflast, öðlast trú á sjálfa sig og þroska með sér sjálfsmynd öryggis og bjartsýni.

Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisfræðingur.