3ja mánaða þyngist ekki?

Spurning:
Ég á 3 mánaða gamalt barn sem þyngist ekki nóg og hefur ekki gert síðan það var 4 vikna. Það er að að þyngjast um 50 gr á viku. Ég er með næga mjólk en hún vill ekki drekka mikið. Ég er búin að prófa að bjóða henni aukapela eftir brjóstagjöf en hún vill það ekki, samt veit ég að hún tekur pela. Hún klárar yfirleitt bara annað brjóstið í einu. Ég reyni allt sem ég get til þess að hún drekki hitt, ropa á milli og hvíla sig aðeins en samt vill hún nánast aldrei nema annað brjóstið þannig að það er ekki það að ég sé með of litla mjólk. Hún var vigtuð fyrir og eftir brjóstagjöf í skoðun og þá hafði hún drukkið 65 ml. og ennþá var samt mjólk í brjóstunum. Ég er komin með miklar áhyggjur, hvað get ég gert til þess að láta hana þyngjast. Hún fæddist 4190gr og er orðin 5500 gr. Getur einhver hjálpað mér?

Svar:
Þetta er alvarlegt vandamál og það fyrsta sem ég vil ráðleggja þér er að fara með barnið til barnalæknis og taka með þér heilsufarsbók þess þannig að hann sjái þyndarferilinn. Einnig vil ég ráðleggja þér að leigja þér mjaltavél og mjólka þig eftir gjafir, a.m.k. 5 mínútur hvort brjóst 8x á dag, til að viðhalda og örva mjólkurmyndun. Reyndu einnig að fá stúlkuna til að sjúga kröftugar, t.d. með því að halda henni í annarri stellingu eða strjúka tanngarðinn og tunguna áður en þú leggur hana á brjóst, bjóddu henni brjóstið oft yfir daginn (a.m.k. 8 sinnum – helst 12 sinnum) og lofaðu henni að vera á því eins lengi og hún vill í hvert skipti. Ef hún sofnar án þess að hafa sogið almennilega getur þú þurft að vekja hana til að halda áfram. Fæstum börnum dugar minna en 15 mínútur til að fylla sig, en yfirleitt nægir klukkutími í gjöf. Það er ekki algilt að þau þurfi bæði brjóstin í hverri gjöf en oftast þiggja þau þó smásopa úr seinna brjóstinu þegar það fyrra er tómt. Sé lítil mjólk í móðurinni geta þau þó gefist upp eftir langt sog og ekki haft orku í að ná til sín nægju sinni.

Ef barnið þyngdist almennilega fram að 4 vikna aldri þá hefur þú væntanlega verið með næga mjólk fram að þeim tíma og hún haft krafta til að sjúga. Það er ógerlegt fyrir mig að meta hvaða orsakir liggja að baki því að hún hægir á sér þá en þú skalt rifja upp hvort/hvernig gjafirnar breyttust og hvort það var eitthvað sem gerðist hjá þér eða barninu á þessum tíma sem getur varpað á það ljósi.

Sjálfsagt er síðan best fyrir ykkur að hitta brjóstagjafarráðgjafa sem getur metið sog barnsins og greint hvort vandamálið liggur í brjóstagjöfinni.

En sem sagt – fyrst til barnalæknis.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir