3ja mánaða með bólur og sár?

Spurning:
Hæ, hæ.
Ég á lítinn strák sem er bara á brjósti. Hann er 3 mánaða og er með rauðar bólur í andlitinu og sár, mér finnst þetta vera exem. Ég er að bera olíu á hann sem inniheldur rósavatn, hnetuolíu, ólívuolíu og lanolin. Þetta á að vera mjög gott, því ég vil ekki bera sterakrem á hann. Get ekki farið og látið kíkja á hann því við erum úti Danmörku. Hvað finnst þér um þetta? Það er líka fullt af dýrum á heimilinu.

Svar:
Það er erfitt að dæma hvað hér er um að vera en ef barnið fær sár eftir bólurnar gæti verið um að ræða sýkingu í húð og þá duga engin heimatilbúin meðul. Svona sýkingar eru tiltölulega algengar hjá litlum börnum og koma oft í kjölfar svokallaðra hormónabóla. Oft berast bakteríur af höndum svo handþvottur er ákaflega mikilvægur. Til að minnka líkurnar á að þetta breiðist út um líkamann eða skilji eftir sig slæm ör ættir þú strax að láta lækni líta á drenginn og fá viðeigandi meðferð.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir