42ja – eitt á brjósti og annað á leiðinni?

Spurning:
Kæra Dagný.
Ég er 42 ára og á 9 mánaða dóttur. Hún er enn á brjósti og brjóstagjöfin hefur gengið vel. Nú á ég von á öðru barni og er að velta fyrir mér hvort ég þurfi að hafa einhverjar áhyggjur af brjóstagjöfinni á meðgöngunni. Hef ekki séð neitt um þetta en heyrt að sum börn vilji ekki taka brjóstið lengur þegar móðirin er orðin barnshafandi? Þarf ég nokkuð að hafa áhyggjur af meðgöngu með svona stuttu millibili þótt ég sé orðin þetta gömul?
Með kveðju,
Ein ,,þroskuð"

Svar:
Ég óska þér nú bara hjartanlega til hamingju með þetta allt saman – nei þú þarft ekkert að hafa áhyggjur af að þú sért orðin of gömul til að eiga börnin svona þétt, tíminn sem eftir er til barneigna er einfaldlega orðinn frekar stuttur. Þú skalt heldur ekkert vera að hafa áhyggjur af brjóstagjöfinni. Þú ert væntanlega vel nærð og hraust og hefur því nógar birgðir fyrir bæði börnin – gættu þess bara að borða heldur próteinríkari mat en venjulega og taka lýsi og fjölvítamín án A og D vítamína. Yfirleitt eru börnin bara sátt við brjóstið þótt mamman verði barnshafandi að nýju en undir lok meðgöngunnar breytist mjólkin aftur í brodd og þá fara þau stundum að fúlsa við brjóstinu og venjast af. En þá verður dóttir þín nú orðin eins árs og þú e.t.v. sáttari við að hún hætti brjóstagjöfinni komi það fyrir.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir