9 mánaða og sefur of lítið

Spurning:

Sæl!

Ég er með smá vandamál. Sonur minn er 9 mánaða og sefur mjög lítið. Þá er ég orðin alveg rosalega þreytt, farin að sofa alltof lítið og laust. Hann hefur aldrei þurft að sofa mikið, sefur að meðaltali 7-8 klst. á næturnar ásamt miklu brölti og á daginn sefur hann í mesta lagi 2 tíma. Hann er mjög hraustur, borðar vel og drekkur, hefur eiginlega aldrei orðið veikur.

Ég er ekki ein með hann en ég þarf að vakna á nóttunni, því maðurinn minn vaknar ekki. Mér var bent á að tala við barnalækni útaf þessu en ég er frekar á móti svefnlyfjum og róandi lyfjum.

Strákurinn minn er frekar ör, hann er löngu farinn að skríða og hann er farinn að reyna að labba. Hann er samt mjög góður að öllu leyti. Ég vil ekki kenna tanntöku um, því að ég held að hún sé ekki vandamálið hér.

Ég veit að sum börn sofa minna enn önnur en ég væri ekki að koma með þessa athugasemd nema af því mér finnst hann alltaf vera þreyttur.

Ég vona að þú getir gefið mér góð ráð, því ég er að verða geðveik af svefnleysi líka.

Kveðja.

Svar:

Sæl!

Níu mánaða börn þurfa flest u.þ.b. 12-13 klst. svefn á sólarhring. Þetta er þó einstaklingsbundið. Daglúrar ættu að vera 1-2 klst af þessum tíma. Nú heyrist mér að sonur þinn sofi talsvert styttra en þetta. Góðs viti er þó að hann er hraustur og þroskast eðlilega, en verra er að þú ert orðin langþreytt.

Það sem vænlegast er að gera í þessu máli er að vera mjög nákvæm með alla reglu á stráknum. Best er að fara sjálf á fætur um kl. 7-8 á morgnana og vekja barnið ef hann er ekki vaknaður. Lofa honum að sofa 1-2 klst. um hádegisbilið (11-13). Passa að hann blundi ekkert um eftirmiðdaginn. Leggja hann um kl. 20. Rólegheit og fastar venjur í kringum þann tíma sem hann á að fara að sofa eru mikilvægar. Sitja með hann, syngja eða sýna myndir í bók og forðast ærsl og líflega leiki klukkutímann fyrir svefntíma. Gott er að gefa honum vel að borða fyrir svefn og gjarnan baða hann á kvöldinn fyrir háttinn. Nú veit ég ekki hvernig er með snuð og pela. Mikil peladrykkja truflar iðulega svefn barna á þessum aldri, þannig ef hann er með pela ennþá, þá skalt þú stefna að því að láta hann hætta á honum. Snuð róar sum börn. Mikilvægt er að hafa reglu á öðrum daglegum venjum líka eins og matartímum, tímum sem farið er út með hann o.s.frv.

Þér finnst kannski að þú hafir reynt þetta allt án árangurs. Hugsaðu samt út í það að breyta svefnvenjum, ekki síst barna á þessum aldri, er þolinmæðisverk og breytist sjaldnast á nokkrum dögum, heldur vikum. Það er ekki síður mikilvægt að þú náir að hvílast. Það verður allt svo erfitt og óyfirstíganlegt ef maður er þreyttur. Hugsaðu út í að þú þarft 7-8 klst. svefn á sólarhring og eðlilegast er að sofa frá miðnætti til 7-8 að morgni. Þú skalt forðast að fara fram úr og vera vakandi með barninu á næturna. Sumum finnst best að hafa barnarúmið alveg upp við sitt rúm og taka í litlu hendina ef barnið vaknar eða klappa aðeins á kollinn. Aðrir eru viðkvæmari og vakna við minnsta rumsk hjá barninu og geta ekki sofnað aftur. Ef því er þannig háttað með þig gæti verið betra að flytja barnarúmið í annað herbergi og sitja á sér að fara fram ef barnið vaknar og sjá hvort hann sofnar ekki sjálfur. Lestu í gegnum almenn svefnráð og reyndu að fara eftir þeim eins og unnt er.

Þú segir að maðurinn þinn vakni ekki til barnsins. Ég held að það sé af hinu góða að láta hann hafa ábyrgðina á svefni barnsins til helminga við þig. Það skeður ekki annað en barnið grætur aðeins lengur þar til pabbi vaknar. Það gæti líka orðið til þess að hann legðist niður og sofnaði aftur. Föðureyrað verður eflaust þynnra ef hann veit að þú sefur annars staðar og það er hans mál að hlusta eftir barninu. Þú gætir þá flutt þig í annað herbergi og náð að sofa, hvílt þig og verið upplagðari að takast á við þetta verkefni.

Hugsaðu líka að svefntruflanir hjá barni eins og þú lýsir þeim eru algengar, þær ganga lang oftast yfir, en fyrr ef tekið er á þeim föstum tökum eins og ég lýsi hér að ofan. Það eru ekki til nein töfraráð til að breyta svefnvenjum barnsins og ég er þér sammála að hugsa ekki út í svefnlyf eða róandi lyf fyrir barnið á þessu stigi málsins.

Gangi þér vel.
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum