Á að taka lyfið Diclocil með mat?

Spurning:

Sonur minn sem er 10 ára fékk ávísað lyfinu Diclocil 12,5 mg/ml vegna sýkingar við efri vör og í nefi. Á meðalaglasinu stendur að hann eigi að taka það með mat. Síðan les ég hjá ykkur í lyfjaskránni að það eigi ekki að taka það með mat. Hverju á ég að fara eftir?

Með fyrirfram þökk.
Móðir.

Svar:

Gott að sjá hversu athugul þú ert. Lyfið Diclocil inniheldur efnið díkloxacillín. Það frásogast vel, þ.e.a.s það kemst auðveldlega í blóðrásina. Það sem gerist ef lyfið er tekið með mat er að þá frásogast það verr. Að öllu jöfnu eru skammtastærðir miðaðar við bestu aðstæður og þá er tekið fram hvernig þær eru, t.d. ekki með mat. Á hinn bóginn getur þurft að taka lyf með mat ef sjúklingurinn þolir lyfið illa, þá verndar maturinn viðkvæmar slímhúðir í meltingarvegi en veldur því jafnframt að minna nýtist af lyfinu. Ef sonur þinn á ekki í neinum erfiðleikum með að taka og þola lyfið þegar hann tekur það ekki með mat, ráðlegg ég þér að halda þér við það. En svo geturðu alltaf haft samband við apótekið eða lækninn og spurt hvað læknirinn hafi ráðlagt og þá hvers vegna (ef hann ráðleggur að taka lyfið með mat).

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur