Á brjósti en hægðirnar sérkennilegar?

Spurning:
Góðan dag.
Dóttir mín er 6 vikna gömul og ég hef verið að spá í hægðirnar hjá henni. Ég er með hana á brjósti og hún drekkur mjög vel, þyngist eðlilega, allavega var ekkert sett útá þyngdina hennar í 4 vikna skoðun. En hægðirnar hjá henni verða stundum grænar, froðukendar og vatnskenndar. Ég hef heyrt að svoleiðis hægðir séu merki um að barnið fái ekki nóg af rjómamjólkinni heldur aðallega formjólkina, en mín drekkur mjög vel og er ekki stutt á brjóstinu. Er þetta bara eðlilegt? Er það eitthvað sem ég á að hafa áhyggjur yfir?

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Mér sýnist þetta vera mjög saklaust. Barnið þitt er að þyngjast eðlilega, drekkur vel úr brjóstinu svo hún ætti að tæma og fá feitu mjólkina. Þetta getur verið lýsing á því að hún fái meira af formjólkinni en ef þú ert viss um að hún tæmi vel brjóstið þá ætti hún að fá feitu mjólkina. Þau þyngjast heldur ekki eins vel ef þau fá bara formjólkina. Það er eðlilegt að þau hafi sjaldan hægðir þegar þau eru á brjósti getur stundum liðið allt að tveim vikum. Ef hún er ekki óróleg og dafnar vel þá held ég að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af þessu. Þú getur alltaf fengið aukavigtun í ungbarnaeftirlitinu til að athuga hvort hún þyngist ekki áfram vel og ráðfært þig við ljósmóðurina eða hjúkrunarfræðinginn þar.
Gangi þér vel, bestu kveðjur

Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur