Af hverju harðnar maginn á meðgöngu?

Spurning:
Góðan daginn og takk fyrir greinargóð svör hingað til.
Mig langar að vita út af hverju maginn harðnar oft á meðgöngu og verður svo harður að ég get ekki sest (komin 8 mán.) Eins langar mig að vita hvort það geti skaðað fóstrið að vera ekki búið að skorða sig og vera alltaf með höfuðið undir rifbeinunum hægra megin svo þau þrýsta á höfuðið?
Með fyrirfram þakklæti

Svar:
Þegar legið dregur sig saman harðnar það og bumban getur orðið glerhörð smástund. Legið er að draga sig saman og slaka á til skiptis alla meðgönguna en eftir því sem líður á verður þetta meira áberandi, einnig vegna þess að legið er stærra. Ef samdráttunum fylgja ekki verki þarftu engar áhyggjur að hafa en ef verkir fylgja getur verið að leghálsinn sé byrjaður að opna sig og þá skaltu fá skoðun hjá ljósmóðurinni þinni í mæðraverndinni til að vera viss.

Sé barnið enn með kollinn upp á við, þ.e.a.s. í sitjandastöðu, við 36 vikna meðgöngu er yfirleitt boðið upp á tilraun til vendingar þar sem því er snúið í höfuðstöðu. Það gerir barninu ekkert til að vera með kollinn undir rifjunum á þér svo framarlega sem þú ekki gerir í því að þrýsta þeim saman. Sjálfsagt verður staða barnsins eitthvað skoðuð nánar í næstu mæðraskoðun hjá þér ef þú ert núna komin 8 mánuði á leið.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir