Afbrýðisemi og óöryggi?

Spurning:
Hæ ég er að pæla hvort þessi afbrýðisemi sé eðlileg hjá mér. Ég verð oft svo leið og fúl ef maðurinn minn minnist á sína fyrrverandi kærustu. En hann er giftur mér og ég gift honum og ég elska hann alveg rosalega. Stundum líður mér eins og hann hafi engan áhuga á kynlífi en ég veit að kannski er það vitleysa að halda svona. Mér líður oft illa í sambandi við kynlífið okkar því ég fer oftast upp á hann, en hann fer öðru hverju upp á mig líka. Ég þori ekki að tala um þetta við hann, er svo hrædd um að hann bregðist illa við en hann elskar mig mjög mikið, málið er að hann getur líka verið of stríðinn. Er það eðlilegt í hjónabandi? Ég hef líka áhyggjur, hafa karlar meiri áhuga á að stunda kynlíf með grönnum konum? Ég hef oft verið að velta því fyrir mér.

Svar:
Sæl.
Þessar pælingar þínar eru allar mjög eðlilegar.  Það er ekkert óeðlilegt að þú pirrir þig á því að hann sé að tala um sína fyrrverandi.  Hann er aftur á móti giftur þér en ekki henni og það segir þér kannski eitthvað um hvað hann vill.  Í sambandi við kynlíf þá eru ekki allir karlmenn meira fyrir grannar konur.  Áhugi karla á konum er bara eins og áhugi þeirra á öðru, misjafn.  Ekkert er hægt að alhæfa um hvað karlar vilja.  Í sambandi við bæði kynlífið og þessa afbrýðisemi er bara ein lausn og það er að segja honum hvað þú ert að hugsa.  Þið eruð gift og ættuð því að treysta hvoru öðru fyrir slíkum pælingum.  Ef þú vilt meira kynlíf eða meiri tilbreytingu þá skaltu bara prófa eitthvað og sýna frumkvæði í því.  Einnig skaltu ræða við hann að þér finnist hann ekki sýna nógu mikið frumkvæði og athuga hvort hann sé sáttur við kynlífið eins og það er.  Oftast verður samskiptaleysi til þess að fólk fer að ráða í það sem makinn er að hugsa.  Þá fer fólk að hugsa allt hið versta og ímynda sér hluti.  Kannski er maðurinn þinn óöruggur, kannski finnst honum þú ekki hafa áhuga á kynlífi og kannski hefur hann engan áhuga á grönnum konum. Þetta veistu ekki fyrr en þú ræðir þetta við hann.  Í hjónabandi er mjög mikilvægt að geta rætt svona mál.  Þú getur ekki verið í sambandi til lengri tíma með því að tala ekki um hlutina af því þú ert hrædd við einhver viðbrögð.  En ég endurtek að þessar pælingar eru ekkert óeðlilegar og í öllum hjónaböndum koma upp akkúrat svona vandamál sem tengjast kynlífi, afbrýðisemi og óöryggi yfir að makinn hafi ekki áhuga.  Þetta er bara ósköp eðlilegt en samt nauðsynlegt að ræða við maka sinn. Þú hefur engu að tapa en allt að græða.
Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur