Áfengisóþol – útbrot og kláði

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er 38 ára gömul kona og mig langar til að vita hvort einhver skýring geti verið á því að stundum þegar ég smakka áfengi þá hleyp ég öll upp. Þetta lýsir sér á þann hátt að mig byrjar að klæja í lófana, svo fer mér að verða smá þungt fyrir brjósti og ég fæ hraðan hjartslátt og síðan verð ég öll rauðflekkótt í framan og stundun á skrokknum. Ég drekk ekki mikið áfengi og þetta gerist af og til. Þegar þetta kemur fyrir hætti ég strax að drekka og helli mér út í vatnsdrykkju og þá hverfur þetta á 1 til 2 tímum. Ég er búin að reyna að finna út úr því hvort þetta hafi eitthvað að gera með hvað ég drekk, en það virðist ekki vera málið. Fyrst þegar þetta byrjaði fyrir nokkrum árum fannst mér það vera ef ég drakk líkjöra svo ég prufaði að sleppa því, en ég drekk ekki sterka drykki fyrir utan stundum líkjöra. Núna um jólin fékk ég þessi einkenni eftir hvítvín. Ég er með psoriasis og datt jafnvel í hug hvort þetta væri eitthvað út frá því. En þetta er þreytandi og það hljóta að vera mikil átök fyrir líkamann af framkalla þessi viðbrögð. Hvað í ósköpunum getur þetta verið?

Bestu kveðjur,
húsmóðir úr Kópavogi.

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Einkennin sem þú lýsir að þú fáir þegar þú drekkur áfengi, kláði í lófum, þyngsli fyrir brjósti, hraður hjartsláttur og útbrot á húðinni gætu sterklega tengst þeim einkennum sem koma fram við fæðuofnæmi. Hlutverk ónæmiskerfisins er að verja líkamann fyrir óæskilegum efnum, s.s. veirum, bakteríum og ýmsum eiturefnum og gerir það með myndun svokallaðra mótefna. Truflun getur orðið á starfseminnni og ónæmiskerfið fer að framleiða mótefni gegn efnum sem að öllu jöfnu eru skaðlaus. Orsakir fæðuofnæmis eru ekki fullþekktar og einkennin geta verið margvísleg allt frá því að vera bundin við meltingarfærin í að taka til alls líkamann og vera lífshættuleg. Algengast er að einkenni séu komin fram innan 2 klst. frá því að fæðu sem ofnæmi er fyrir er neytt. Það sem gerist í líkamanum við fæðuofnæmi er að þegar einstaklingur borðar fæðu sem hann hefur ofnæmi fyrir fer ónæmiskerfi hans að framleiða mótefni og þar á meðal er efni sem kallast histamín. Þau einkenni sem koma fram við losun þessara efna eru kláði, þroti í slímhúðum og aukin framleiðsla á slími, vöðvakrampar, roðaflekkir á húð og útbrot ásamt fleiri einkennum. Það er þó alls ekki fullvíst að þú hafir ofnæmi fyrir áfengi, því þekkt er að histamín er til staðar í áfengi og getur neysla á ákveðnum tegundum áfengis valdið einkennum sem eru sambærileg þeim sem koma fram við fæðuofnæmi án þess þó að fæðuofnæmi sé til staðar.
Þar sem fæðuofnæmi getur verið lífshættulegt og þarfnast sérhæfðar meðferðar hvet ég þig eindregið til að hafa samband við lækni sem getur gert þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að komast að því hvort um raunverulegt fæðuofnæmi er að ræða.

Gangi þér vel,
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.