Afleiðing kransæðastíflu

Spurningin:

24 ára – kona

Halló!

Ég er með spurningu í sambandi við hjartasjúkdóma, móðir mín fékk kransæðastíflu fyrir 11 árum síðan og þá var hún fertug. Þetta var mjög óvænt þarsem hún var ung og engir slíkir sjúkdómar eru í okkar ætt, hún hefur aldrei verið of þung og borðar mjög heilbrigt, en hún hins vegar reykti og var undir frekar miklu álagi. En það var hringt mjög fljótt í sjúkrabíl þegar þetta gerðist og hún fékk fljótt læknishjálp en það "dó" víst einhver smá hluti ef hjartanu hennar, sem þýðir held ég að hluti af hjarta hennar er óvirkur í dag ekki satt? En það var allavega settur einhver gormur inn í æðina til að halda henni útvíkkaðri, þó ég viti ekki mikið um tilgang svona gorma. En nú hef ég svo miklar áhyggjur af henni því ég veit ekkert hvort það sé mikil hætta á að hún fái kransæðastíflu aftur, og ég veit ekki hvað þessi gormur gerir og dugar hann endalaust? Eru lífslíkur hennar minni en fólks sem eru með heilbrigt hjarta? Hún reykir ekki lengur nema við mjög sérstök tækifæri og hún hefur
  aldrei verið jafn vel á sig komin líkamlega og það er mjög jákvætt en ég er samt með áhyggjur af þessu. Svo er komin frábær nýjung til landsins, þessir hjartaskannar og ég var voða glöð og hélt þá loksins að mamma gæti farið í svoleiðis og það væri hægt að sjá alveg hver staðan væri á hjartanu hennar, og hvernig staðan er á þessum umrædda gormi. En hjartalæknirinn hennar sagði að hún gæti ekki farið í svona skanna, að þessi skanni sé ekki fyrir fólk sem hefur fengið kransæðastíflu. Afhverju er það? Ég hélt að þetta væri frábært fyrir hjarveikt fólk til að vita hvernig staðan er á hjarta þeirra. Mamma fer á nokkra mánaða fresti til hjartalæknis í eftirlit og þá er tekið blóð og blóðþrýstingur kannaður og eitthvað hjartalínurit tekið og slíkt, en er það nóg til að vita með fullri vissu að engin hætta er á að eitthvað komi uppá? Áður en hún fékk kransæðastífluna þá var hún nýbúin í einhverri viðamikilli hjartarannsókn þarsem blóð var rannsakað ofl. og það kom vel út, en nokkru  m mánuðum seinna fær hún kransæðastíflu. Þannig að ég er pínu áhyggjufull og ég vil vita þetta allt saman og ég vil sérstaklega vita ef ég er með óþarfa áhyggjur af því það er mjög óþægilegt að hafa stanslausar áhyggjur af einhverjum sem maður elskar. Þannig að ég yrði mjög þakklát ef einhver getur varpað ljósi á þetta fyrir mig.
Kærar þakkir.

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Ég skil vel áhyggjur þínar, en þar sem hún er undir eftirliti sérfræðings þá er hún án efa í góðum höndum og fær viðeigandi meðferð. Það sem skiptir máli er að vera duglegur að spyrja og þær spurningar sem þú/hún/þið leggið upp svarar hjartasérfræðingurinn best. Fá útskýringar þar til þið skiljið gang mála, munið að allar spurningar eiga rétt á sér. Hitt er svo annað mál að ef þú/þið eruð ekki ánægð með svör eða meðferð þá er alltaf inní myndinni að fá álit annars læknis og ekkert óeðlilegt við það.

Kransæðastíflur skilja eftir sig ör í hjartavöðvanum þar sem skemmdin varð. Þar breytist vöðvinn í bandvef, sem hefur minni dælueiginleika en upprunalegi vöðvavefurinn. Geta hjartans til þess að dæla blóði getur því minnkað. Það fer síðan eftir stærð skemmdarinnar hversu mikil áhrif kransæðastíflan hefur á líkamlega getu eftir áfallið. Við litla skemmd finnur sjúklingurinn yfirleitt ekki fyrir neinu eftir á. Ef skemmdin er hins vegar stór getur það leitt til langvarandi þrek- og úthaldsleysis.

Reykingar er einn af verstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma og því ætti móðir þín að hætta þeim alveg.

Varðandi stent eða gorm eins og þú talar um þá sendi ég þér mynd sem sýnir vel hvað er gert en tilgangurinn er að halda æðinni sem var orðin stífluð opinni til að tryggja blóðflæði til hjartavöðvans.

Það er enginn sem getur svarað því hvað framtíðin ber í skauti sér, en það besta sem hægt er að gera er að vera undir reglulegu eftirliti, eins og móðir þín er, og stunda heilbrigt líferni (regluleg hreyfing og hollt mataræði).
 
Að lokum langar mig að benda þér á að á síðunni Doktor.is er fjöldi greina um kransæðasjúkdóma sem getur verið áhugavert að kynna sér. Notaðu leitina.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel í lífinu,

Unnur Jónsdóttir,
Hjfr. og ritsjóri Doktor.is