Áhrif lyfja á fóstur?

Spurning:
Ég komst að því í gær að ég væri ófrísk og er mjög ánægð með það. En þar sem ég tek própranólól við mígreni á hverjum degi þá ákvað ég að athuga hvort það hefði áhrif á fóstrið, og svo virðist vera. Það stóð að lyfið gæti haft áhrif á fóstrið, aðalmálið væri samt brjóstagjöfin en þá væru áhrifin ekki varanleg. Ég veit ekki alveg hvort ég á að halda inntökunni áfram.

Væri mjög þakklát fyrir gott svar 🙂

Svar:
Própranólól getur valdið hægum hjartslætti hjá fóstri og nýfæddu barni og blóðsykurfalli hjá nýburum. Það veldur ekki vansköpun. Lyfið skal því aðeins nota með mikilli varúð og undir eftirliti á tveimur seinni þriðjungum meðgöngu og fyrir fæðingu. Ekkert bendir til óæskilegra áhrifa á fóstrið á fyrstu þremur mánuðunum.

Þú skalt því ráðfæra þig við lækninn þinn um hvort óhætt sé fyrir þig að halda áfram að taka lyfið. Í svona tilfellum þarf alltaf að vega og meta áhættuna af töku lyfsins móti því sem gerist ef töku þess er hætt og þeim áhrifum sem sjúkdómurinn hefur á meðgönguna og fóstrið.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson,
lyfjafræðingur