Áhrif serótóníns á heila?

Spurning:
Hvaða áhrif hefur efnið serótónín á heilann? Hvað gerist ef það er lítið af því og ef tekið er t.d. lyfið Seról til þess að auka magn þess í taugamótum heilans, s.s. hvaða áhrif hefur þetta efni á heilastarfsemi? Vona að þessi spurning sé skiljanleg með vinsemd og þökk.

Svar:
Serótónín er efni sem er víða til staðar í líkamanum. Meginhlutverk þess er að virka sem boðefni í miðtaugakerfinu. Taugum og taugaboðum má lýsa mjög einfaldað þannig að um er að ræða mislanga taugaþræði. Boð eru send um þessa taugaþræði sem rafstraumur. Við samskeyti taugaþráðanna er bil á milli þeirra (synapse). Taugaboðin berast yfir þetta bil með sérstökum boðefnum. Í ákveðnum hluta ósjálfráða taugakerfisins eru aðalboðefnin noradrenalín og serótónín. Samspil þessara boðefna er flókið og að hluta til ekki þekkt. Sé of lítið af þessum boðefnum til staðar af einhverjum ástæðum berast taugaboð ekki eðlilega um líkamann.

Þunglyndi stafar oft af truflunum í þessum boðefnaskiptum. Í seinni tíð hafa menn beint sjónum sínum mikið að hlutverki serótóníns í þunglyndisröskunum. Meira er um það í kaflanum um þunglyndislyf á doktor.is.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur