Áhrif spírulinu?

Fyrirspurn:


Hrif spirulina, hefur haft góð áhrif á svefn minn þ.e. í stað þess að vakna ef "fluga labbar á þakinu,ert þú vaknaður og sofnar ekki í marga klst.(frúin)",þá sofna ég nærri srax aftur. Þetta er eftir ca. 6-7mánaða inntöku, 5 stk síðdegis. Hvað veldur?  Hef tekið lýsi frá barnsaldri og blóðþrýstingslyf frá 1988. Er konu minni óhætt að taka inn Green eitthvað frá Gill.Mac eitthvað. Hún er með iktsýki, vefjagigt og
slæma beinþynningu. 'Eg er reyklaus frá'90, hún '95. Takk!

Aldur:
63

Kyn:
Karlmaður

Svar:

Sæll vertu.

Spirulina er eitt af þeim gríðarlega fjölda náttúrulyfja/vara sem í boði eru. Spirulina er unnið úr blágrænþörungum og er nafn vörunnar að nokkru leyti dregið af fræðilega heiti þörunganna. Þessi tiltekna samsetning virðist hafa vakið athygli fyrir að vera mjög næringarrík en hún innilheldur mikið magn próteina, fitusýra og annara næringarefna.

Vísbendingar eru um að efnið hafi jákvæð áhrif gegn ýmsum kvillum, s.s. blóðleysi, háþrýstingi, háu kólesteróli ásamt því að minnka matarlyst. Þó er það svo með þessa vöru, líkt og aðrar náttúruvörur, að hún er ekki skráð sem hefðbundið lyf og lýtur því allt öðrum lögmálum hvað varðar lög og reglur. Ennfremur er þörf á frekari rannsóknum þó vissulega séu rannsóknir sem sýna fram á ákveðna verkun lyfins og ber þar helst að nefna andoxunaráhrif.

Um áhrif á svefn er lítið að finna en á a.m.k. einni af þeim fjölmörgu vefsíðum sem selja efnið er sérstaklega tekið fram að Spirulina geti truflað svefn hjá þeim sem sofa laust svo það virðist andstætt því sem þú nefnir. Það er hinsvegar gott að heyra að svefninn hjá þér hafi lagast hvort sem það er Spirulina eða einhverju öðru að þakka. Hugsanlega gæti það verið vegna einhverra annarra breytinga hjá þér s.s. breytt mataræði, aukin hreyfing, önnur lyfjainntaka o.s.frv. En miðað við þær upplýsingar sem er að finna um Spirulina er því miður ekki hægt að fullyrða að Spirulina sé að bæta svefn þinn og þaðan af síður hvers vegna.

Varðandi seinni spurninguna get ég því ekki aðstoðað nema ég fái nánari upplýsingar um heitið á efninu. Ef þú getur séð þér fært um að senda inn nánari upplýsingar get ég sent þér meira fullnægjandi svar.

Bestu kveðjur

Þórir Benediktsson, lyfjafræðingur