Áhyggjur af að hafa valdið skaða

Spurning:
Ég er með eina spurningu sem mér liggur á hjarta. Málið er það að ég er á 34. viku og allt hefur gengið rosalega vel. En þegar ég var komin 8 vikur á meðgöngu þá uppgötvaði ég að ég væri ólétt og var mjög ánægð með það en ég var búin að vera í miklu átaki, var búin að synda mikið, hlaupa og lyfta lóðum upp á hvern einasta dag og liggja í heitum pottum (hef heyrt að það geti valdið fósturgöllum) en það sem ég er hræddust við er það að ég var búin að taka inn Ripped fuel m/effedrini:(
Mér var sagt að þetta myndi hjálpa mér að grennast. Ég hætti um leið og ég vissi að ég var ólétt. Hefur það mikil áhrif á 8 vikna fóstur? Ég er mjög vond út í sjálfa mig að hafa gert þetta en það er ekki hægt að taka það til baka sem gerst hefur, þetta er mitt fyrsta barn. Með von um gott svar. Ein áhyggjufull!!

Svar:
Það er aldeilis að þú hefur verið í átaki og teldist gott mál ef frá er skilið ,,bætiefnið". Það er nú heldur erfitt að fá nákvæma innihaldslýsingu á Ripped Fuel en eftir því sem mér skilst eru í því ýmiss konar örvandi og svengdarhemjandi efni auk ríkulegs skammts af völdum aminósýrum. Þannig að heldur er það nú óhollt. En eftir því sem best er vitað er efedrín ekki fósturskemmandi þannig að þú getur verið róleg hvað það varðar. Heitu pottarnir eru vissulega einnig varasamir á meðgöngu en fari maður ekki lengi í einu í pott yfir 39°C er lítil hætta fyrir hendi.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir