Að hætta á Seroxat undir eftirliti?

Spurning:

Sæll vertu Jón Pétur.

Mig langar að spyrja þig ráða varðandi lyfið Seroxat. Ég hef notað lyfið í tæpt ár og heimilislæknir minn vill hætta lyfjameðferðinni, enda er ég fjallhress. Þó er ég kvíðin, því það hefur komið fyrir að ég gleymi að taka inn lyfin og það er langt frá því að vera skemmtileg upplifun. Ég hef rætt þetta við heimilislækni minn, en hann kannast ekki við þessi einkenni og gefur lítið út á þau. Ef ég missi 2 daga úr í röð (t.d. á ferðalagi) finn ég fyrir mikilli líkamlegri vanlíðan. Ég fæ einkennilegan slátt frá hálsæðum og brjósti – eins og það sé bankað í mig, fæ svimatilfinningu og einbeitingarskort og verð jafnvel smeyk um að það sé að líða yfir mig. Er þetta eðlilegt? Ég er 27 ára gömul og hraust að öllu leyti, nema stöku blóðþrýstingsfall. Ætti ég kannski að láta fylgjast með mér náið á meðan ég hætti lyfjameðferðinni?

Með fyrirfam þökk,
Ánægð Með Lífið.

Svar:

Helmingunartími Seroxats (paroxetíns) í plasma er stuttur (24 klst.) sem þýðir það að eftir að töku þess er hætt hverfa áhrifin fljótt. Ef hætt er snögglega að taka lyfið getur sjúklingurinn upplifað aukaverkanir eins og svima, geðsveiflur, svefntruflanir, kvíða, æsing, ógleði og svitaköst.

Ef hætta á meðferð með Seroxati er gott að minnka skammtana smám saman. T.d. ef viðkomandi er á 40 mg getur verið gott að taka 30 mg í viku (má brjóta töflu), 20 mg í viku og enda svo í 10 mg í viku. Með því móti minnka líkur á óþægindum/aukaverkunum sem geta komið í kjölfar þess að hætta töku lyfsins.

Sjálfsagt er að gera þetta undir eftirliti læknis því að vera kann að hefja þurfi lyfjameðferð aftur.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur