Að vernda ungbörn fyrir veikindum

Fyrirspurn:


Að vernda ungbörn fyrir veikindum.
Hvað er rétt að gera til að forðast að ungbarn verði veikt, fái flensu?  Það eru misjafnar skoðanir um hvað sé eðlilegt að gera til að vernda börn fyrir veikindum.  Sumir tala um að ef skólabörn séu á heimilinu sé mikilvægt að þau skipti um föt og þvoi sér um hendur og andlit um leið og þau koma heim úr skóla. Aðrir tala um að það sé eðlilegt og jafnvel nauðsynlegt fyrir ung börn að „kynnast“ bakteríum til að líkaminn geti smám saman myndað mótefni fyrir þeim.
Hvað er rétt að gera varðandi hættu á smiti pesta á milli heimila? Algengt er að skilnaðarbörn eigi nánast  tvö heimili. Hvað er rétt að gera, ef það eru tíð veikindi á öðru heimil barnsins, til að hindra að pestir berist á hitt heimilið, þar sem ungbarn er. Barnið sem flakkar á milli heimila er ekki veikt en gæti verið smitberi.
Eru til aðrar leiðir en að fresta heimsóknum?  Við hvaða aldur er ungbarnið komið "úr hættu"?

 

Aldur:
33 ára

Kyn:
Kvenmaður 

Svar:

Sæl vertu,

Þetta er stór spurning og líklega getur þú fengið óteljandi svör sem öll gætu verið rétt útaf fyrir sig.
Börn á skóla og leikskólaaldri eru umvafin allskonar smitberum og þau eru að þroska ónæmiskerfið sitt á þessum aldri og verða því oftar veik en hinir fullorðnu en um leið eru þessi veikindi sjaldnast alvarleg, líkaminn ræður vel við þau og lærir að bregðast við. Vandinn liggur hjá ungbörnunum því það getur verið erfiðara að fá þau til að borða og drekka og láta þeim líða vel þegar þau verða lasin og þá geta þau orðið veikari en ella. Ungbörn fá reyndar  talsverða vörn gegn pestum úr brjóstamjólk og er það ein af ástæðunum fyrir því að verið er að hvetja til að hafa þau á brjósti fyrstu 9 mánuðina. Það er hins vegar ekki alltaf hægt og dugar ekki alltaf alveg til.
Ekki hefur þótt ástæða til að bólusetja heilbrigð börn gegn influensu til dæmis því talið er að þau geti ráðið við hana en það á ekki við um börn sem eru með einhvern undirliggjandi sjúkdóm, þau eru gjarnan bólusett.  Hins vegar getur verið erfitt fyrir foreldra að vera oft og mikið heima hjá veikum börnum sínum og reyna að stunda vinnu um leið.
Það sem best hefur reynst er að takmarka umgengni ungbarna við þá sem eru verulega veikir. Það þýðir ekki að reka eigi veika heimilismenn að heiman heldur að hafa viðkomandi helst ekki í sama herbergi á meðan að veikindin standa yfir og forðast alla snertingu eða samneyti þeirra á milli.

Það er góður síður fyrir alla að þvo sér alltaf um hendurnar þegar heim er komið- bæði börn og fullorðnir. Við berum óafvitandi allskonar smitbera með heim og getum dregið verulega úr smithættu með handþvotti. Eins á að þvo vel hendur áður en ungbarn er snert og eins eftir öll bleijuskipti.
Aldrei verður að fullu komið í veg fyrir smit og "pestar" í hæfilegu magni efla ónæmiskerfið – handþvottur og skynsemi eru því bestu vopnin.
Vona að þetta hjálpi þér eitthvað

Bestu kveðjur
Guðrún Gyða, hjúkrunarfræðingur