Aðeins að spá í liðagigt?

Spurning:

Ég er aðeins að spá í liðagigt.

Er hægt að sjá fyrirfram hvort það sé eitthvað hjá manni sem gæti bent til þess að maður fengi liðagigt seinna á lífsleiðinni? Með þá einhverjum rannsóknum eða blóðprufum eða eitthvað þess háttar. Ég er 22 ára og faðir minn fékk liðagigt þegar hann var um fertugt. Þess vegna er ég pínu smeykur við liðagigtina. Er eitthvað sem maður getur gert sem er fyrirbyggjandi fyrir liðagigt?
Takk.

Svar:

Sæll!

Iktsýki (liðagigt) virðist að einhverju leyti fylgja ættum en líkurnar á því að fleiri en einn í fjölskyldu fái sjúkdóminn eru litlar.

Orsakir iktsýki og annarra ónæmisjúkdóma eru enn í dag óþekktar.

Það er ekki hægt að sjá fyrir með blóðsýnum eða öðrum leiðum hvort líkur séu á að sjúkldómurinn sé yfirvofandi seinna á lífleiðinni. Og litlar líkur á að svo verði meðan orsakir sjúkdómsins eru ekki þekktar.

Í iktsýkinni fer af stað ferli í líkamanum sem veldur því að ónæmiskerfið fer að ráðast á eigin vef og við það myndast sjálfsmótefni og þar á meðal svonefndir gigtarþættir. Þeir mælast ekki í blóði fyrr en sjúkdómurinn er orðinn virkur.

 

Með kveðju.

Starfsfólk Gigtarlínu Gigtarfélags Íslands