Ætihvönn og salernisferðir?

Spurning:
Útvarpsmaður nokkur, sem lætur allt vaða um einkamál sín, hefur hælt mjög náttúrulyfi nokkru, sem inniheldur æti úr ætihvönn, sem hafi haft þau áhrif á sig, að í stöðugum salernisferðum 6-7 sinnum á nóttunni, þurfi hann aldrei að fara fram á nóttunni eftir að hafa byrjað á að taka lyfið fyrir mörgum mánuðum. Í nýjasta félagsriti eldri borgara LISTIN AÐ LIFA, er kynning á þessu lyfi, þar sem fram kemur, að ætihvannalauf, sem nefnist SAGA PRO, sé komin á markað. Er þarna sagt, að rannasóknir sýni, að í þessu blessaða laufi sé m.a. efnið osthenol. Guð má vita hvað það er! Klykkt er svo út með þessu: ,,Nú er SagaPro komin á markað, en þetta er ný vara frá SagaMedica-Heilsujurtum ehf., sem hefur verið í reynslunotkun í tvö ár bæði hérlendis og erlendis. (Hef heyrt þetta áður!)  Fæst í lyfjabúðum.“ Hvað segja læknar um þetta?
BEZTU KVEÐJUR,

Svar:
Stöðugt koma á markað ,,ný“ náttúrulyf. Oft á tíðum eru þau markaðssett með miklum og hástemmdurm auglýsingum. Vitnað er þá alla jafna í að fleiri eða færri oft nafngreindir einstaklingar hafi reynt vöruna með góðum árangri og það notað til að fullvissa nýja neytendur um ágæti hennar. Ef vitnað er í rannsóknir er það yfirleitt frekar óljóst hvernig þær hafa farið fram.  Tvíblindar, stórar rannsóknir eins og öll lyf undirgangast áður en þau eru markaðssett virðast að mestu óþekktar á þessum markaði, enda eru þær mjög dýrar í framkvæmd og niðurstöðurnar valda oft vonbrigðum fyrir þá sem láta framkvæma þær.  Við sem tilheyrum hinum hefðbundnu háskólamenntuðu heilbrigðisstéttum, erum því alla jafna frekar tortryggnir á yfirlýsingar eins og þær sem þú nefnir um SAGA PRO. Við vitum að sögur af góðri verkun einhverrar vöru á heilsufar tilgreindra einstaklinga segja því miður ekkert um raunverulega virkni.  Að framansögðu verð ég því að segja að ég tel jákvæða verkun náttúrulyfja unnum úr hvönn á mismunandi líkamsstarfsemi alls ekki sannaða. Á sama hátt get ég ekkert um að fullyrt að ekki sé um einhverja jákvæða verkun að ræða. 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur