Átröskun og strákar?

Spurning:
Hæbb.. Ég er 18ára STRÁKUR að berjast við Anorexiu. Mig langar að fá álit hjá ykkur. Nú hefur átröskun alltaf verið talin "stelpusjúkdómur" og ef strákar eru með þetta þá eru þeir ALLIR flokkaðir undir einn flokk, samkynheigð. Ég veit alveg hundrað prósent hver kynheigð mín er og hún er gagnkynheigð, eða kannski meira út í þetta nýjasta æði metrosexual. Það er bara svo rosalega erfitt að vera að berjast við þennan sjúkdóm og fordóma í leiðinni, því auðvitað vill maður ekki vera flokkaður eitthvað sem maður er bara hreinlega ekki. ÉG hef alltaf haft rosa lítið sjálfsálit og traust á sjálfum mér, og þetta bætir það ekki. Er eitthvað sem er verið að gera til að vekja athygli á því að ALLIR geta fengið átraskanir? og ekki bara stelpur og hommar….!! því það er svo rangur miskilningur.. Endilega viljið þið fræða mig um þetta… Takk Takk kv.

Svar:
Ég er sammála þér að það þarf að vekja athygli fólks á því að allir geta fengið átraskanir, óháð kyni og kynhneigð.

 

Það er víst nógu erfitt eins og þú segir að glíma við alvarlegan sjúkdóm þó að þú þurfir ekki líka að standa í útskýringum á kynhneigð þinni. Best væri auðvitað ef þú gætir látið vangaveltur annarra um kynhneigð þina lönd og leið þar sem engum ætti að koma það við hvort þú ert samkynhneigður eða gagnkynhneigður.
Mér finnst reyndar að það þurfi almennt að berjast gegn þeirri tilhneigingu fólks til að flokka fólk þar sem staðreyndin er sú að allir geta fengið geðraskanir og þær birtast í mjög breytilegum myndum frá einum einstaklingi til annars. Geðhjálp hefur einmitt barist gegn fordómum af ýmsu tagi og þess vegna er fyrirspurn þín mikilvægt innlegg í þá baráttu.
Ég vil benda þér á sjálfshjálparhóp einstaklinga með átraskanir sem hittist vikulega á miðvikudögum kl. 20.00 í húsnæði Geðhjálpar, Túngötu 7. Einnig er hægt að setja sig í samband við þennan hóp með því að skrifa tölvupóst á netfangið: spegillinn@talnet.is eða hringja í síma 661-0400.

 

Með kærri kveðju, Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.