Aukin lykt af þvagi á meðgöngu?

Spurning:

Kærar þakkir fyrir upplýsingarnar um pilluna…

Ég er hérna þeð aðra spurningu fyrir þig. Það getur verið að ég sé ólétt, það er möguleiki, en mig langar að spyrja þig um það, hvort að lyktin af þvaginu hjá manni breytist þegar maður verður óléttur. Það er nefnilega þannig að lyktin hefur breyst og hún er frekar sterkari en venjulega. Gerðu það að svara þessu fljótlega fyrir mig.

Með þökkum.

Svar:

Sæl.

Ekki hef ég nú heyrt það að lyktin breytist af þvaginu á meðgöngu en það er ekkert ólíklegt. Hins vegar bendir sterk lykt af þvagi oft til þvagfærasýkingar eða að maður sé ekki að fá nægan vökva og þvagið sé því of sterkt. Ýmsar matvörur gefa líka þvaginu lykt, svo sem kaffi og aspas. Gáðu að því hvort þvagið er gruggugt því þá ert þú líklega með blöðrubólgu sem þarf að meðhöndla með lyfjum. Ef þvagið er dökkgult þarftu að drekka meira af vatni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir