Aum eftir brjóstagjöf

Spurning:

Sæl Dagný!

Ég á 6 mánaða gamlan son og það eru u.þ.b. 3 vikur síðan ég hætti með hann á brjósti. Fyrst hætti ég að gefa honum á morgnana, svo eftir hádegi og svo á kvöldin. Þetta gekk frekar hratt fyrir sig. Málið er að ég var að spá í hvort væri eðlilegt að finna til í brjóstunum svo lengi á eftir. Núna eru sem fyrr segir 3 vikur síðan og ég er frekar aum í báðum brjóstunum og þá helst undir geirvörtunum. Ég er þó verri í öðru brjóstinu og úr því kemur enn vökvi. Er þetta eðlilegt eða á maður ekkert að finna fyrir þessu?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Þegar hætt er með brjóstagjöfina svona hratt þá ná brjóstin ekki alveg að halda í við minnkaða eftirspurn og ef þau eru ekki mjólkuð aðeins geta myndast stíflur og þrimlar. Mjólk heldur áfram að koma úr brjóstunum í margar vikur eða mánuði eftir að brjóstagjöf er hætt. Því er ekki óeðlilegt að þér sé illt í brjóstunum. Ef eymslin eru slæm eða það er roði og hersli í brjóstinu verður þú að láta brjóstagjafarráðgjafa, ljósmóður eða lækni líta á þig. Það gæti þurft að mjólka einhverja mjólkurganga og jafnvel þyrftir þú sýklalyfjagjöf ef komin er bólga í brjóstin.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir