Aumar geirvörtur – hvað er til ráða?

Spurning:

Góðan dag.

Ég er með 2 vikna dóttir sem ég vildi gjarnan hafa á brjósti , en það gengur ekki neitt. Strax í upphafi komu sár á geirvörturnar (sjálfsagt fyrir klaufaskap okkar beggja) og ef ég set hana á brjóstið er það mjög sárt og hún virðist ekki fá neitt, þ.e. hún sígur og sígur en það endar bara með því að geirvörturnar verða húðlausar og ennþá sárari. Ég hef því tekið á það ráð að mjólka mig og gefa henni brjóstamjólk þegar hún er til, en annars SMA þurrmjólk. Er það slæmt fyrir barnið? Ég hef vissulega reynt að fara eftir leiðbeiningum úr brjóstagjafabæklingi Barnamáls en mér gengur samt ekkert betur. Hvað er til ráða? Þegar ég reyni að gefa henni brjóst og ekkert gengur fer það mjög í mig og ég græt og hún grætur þannig að þetta er ekki gott fyrir geðheilsu fjölskyldunnar (að það gangi svona illa mér finnst ég hálf vonlaus).

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Það er greinilegt að dóttir þín er eitthvað að gera vitlaust þegar hún tekur brjóstið. Það á ekki að vera sárt að gefa brjóst, hvað þá að geirvörturnar verði húðlausar og blæðandi. Það gengur vitaskuld ekki að þið grátið báðar við brjóstagjöfina og skiljanlega ertu að því komin að gefast upp. Þið hafið greinilega farið eitthvað vitlaust af stað og þurfið hjálp til að koma því í lag. Prófaðu að tala við hjúkrunarfræðinginn sem kemur að vigta dóttur þína og lofaðu henni að sjá þig gefa brjóst – kannski sér hún hvað er að. Eins er starfandi brjóstagjafarráðgjafi á Landspítalanum. Þótt þurrmjólkin sé ekki slæm fyrir barnið er því vitanlega hollara að vera á brjósti ef hægt er. Þú gætir e.t.v. mjólkað þig í nokkra daga meðan geirvörturnar eru að gróa og síðan byrjað brjóstagjöfina upp á nýtt með góðri hjálp hjúkrunarfræðingsins og/eða brjóstagjafarráðgjafans.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir