Bandvefshnútar í brjóstum

Spurning:

Sæl.

Mig langar til að fá upplýsingar um bandvefshnúta í brjósti og er með nokkrar spurningar um það.

1. Hvað er bandvefshnútur?

2. Er bandvefshnútur það sama og góðkynja æxli?

3. Hvað er venjulega gert ef það bandvefshnútur finnst? Er hann fjarlægður?

4. Ef kona hefur fengið bandvefshnút í brjóstið er hún í meiri hættu á að fá krabbamein í brjóstið?

Svar:

1. Hér er líklega átt við það, sem við köllum „kirtilbandvefshnúta” eða fibroadenoma. Þetta eru góðkynja hnútar, sem myndast út kirtilfrumum brjóstsins og bandvefsfrumum, sem einnig eru til staðar í eðilegum brjóstavef. Þessir hnútar eru algengastir hjá ungum konum og geta komið fyrir hjá unglingsstúlkum. Stundum er um fleiri en einn hnút að ræða. Hnútar þessir vaxa mishratt og geta orðið mjög stórir.

2. Kirtilbandvefshnútur er vissulega góðkynja æxli og algengasta góðkynja æxli í brjóstum. Hins vegar eru til ýmsar fleiri tegundir góðkynja æxla í brjóstum.

3. Kirtilbandvefshnútur sem finnst við þreifingu og veldur óþægindum er oftast fjarlægður, yfirleitt að undangengnu stungusýni, sem staðfestir þá greininguna. Ef greining er þannig staðfest, er hins vegar ekkert sem liggur á með að fjarlægja hnútinn. Kirtilbandvefshnútar, sem ekki finnast við þreifingu, en hafa sést á röntgenmynd eða uppgötvast af tilviljun á annan hátt, eru oft látnir eiga sig, ef staðfesting fæst á greiningunni með stungusýni.

4. Lengi var talið, að kirtilbandvefshnútum fylgdi ekki aukin áhætta á brjóstakrabbameini. Síðustu 15 ár, eða svo, eru menn hins vegar komnir á þá skoðun, að líklega sé tíðni brjóstakrabbameins vægt aukin hjá konum, sem hafa eða hafa haft kirtilbandvefshnúta.

Anna Björg Halldórsdóttir læknir á röntgendeild Krabbameinsfélagsins.

Minnt er á að hjá Krabbameinsráðgjöfinni er hægt að fá ýmsar upplýsingar um krabbamein. Síminn er 800 40 40 kl. 15-17 virka daga. Einnig er hægt að senda fyrirspurn í tölvupósti: 8004040@krabb.is