Baugar undir augum?

54 ára – kona

Mig langar að vita af hverju sonur minn er með dökka bauga kringum augun, er það af efnaskorti eða  hvað getur valdið því?

Svar:
Sæl og blessuð og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Ég vísa í svar Jóhannesar Kára Kristinssonar þar sem hann svarar spurningunni ,,Hvað eru baugar?" á Vísindavef Háskóla Íslands en þar segir:

Baugar undir augum eru algengt fyrirbæri sem á sér nokkrar orsakir.

Húðin undir augunum er sérstaklega þunn, og með aldrinum þynnist hún enn meir. Við það koma í ljós smáar blóðæðar undir og í húðinni sem gefa henni dökkan blæ. Þegar fólk þreytist geta æðarnar tútnað út og baugarnir verða meira áberandi. Meðganga og ofnæmi geta líka gert baugana sýnilegri.

Önnur orsök fyrir baugum er aukið litarefni í húðinni, sem kallast melanín.
Sumar fjölskyldur, sérstaklega þær sem eiga rætur að rekja til landanna við Miðjarðarhaf, hafa meira áberandi bauga í kringum augun.

Þriðja mögulega orsökin fyrir baugum eru pokar undir augum, sem geta myndast með aldri, í veikindum, svo sem hjartabilun, og stundum við það eitt að liggja út af. Þessir pokar geta varpað skugga undir augun, þannig að það sýnast vera baugar undir augunum.

Jafnframt má geta þess að sum augu liggja djúpt, þannig að augabrúnir varpa skugga kringum augun.

Blint fólk getur haft bauga undir augum líkt og aðrir. Ef um augnsjúkdóma er að ræða sem lýsa sér í innföllnum augum eða auknu blóðflæði í kringum augun getur það aukið á baugana.

Lítið er vitað um meðferð við þessu fyrirbæri, þar sem þetta er venjulega ekki talið sjúklegt. Reyna má þó kalda bakstra til að freista þess að draga saman æðarnar. Einnig hefur í völdum tilvikum verið greint frá góðum árangri með leysiaðgerðum. Framleiðendur ýmissa húðkrema hafa einnig haldið fram gildi þeirra við að minnka "augnbaugana" en það er þó ósannað.  
 

Ég vona að þessi ágæta umfjöllun Jóhannesar Kára skýri út fyrir þér eðli bauga í kringum augu,

Bestu kveðjur,
Þórgunnur Hjaltadóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ritstjóri doktor.is