Beta blokkarar

Fyrirspurn:


Ef maður tekur betablocker (Própanolol), á maður þá erfiðara með andardráttinn eða þol þegar maður hleypur t.d. í fótbolta? Á líkaminn erfiðara með að vinna?

Aldur:
22

Kyn:
Karlmaður

Svar:

Sæll,
 
Beta blokkarar virka með því að minnka samdráttarkraft hjartans og lækka þannig blóðþrýsting. Lyfið virkar bæði á svokallaða beta-1 og beta-2 viðtaka. Beta-1 viðtakar eru í hjartanu og blokkun á þeim dregur úr hjartslætti og samdráttarkraftinum þegar hjartavöðvinn verður fyrir auknu álagi, til dæmis við aukna hreyfingu og líkamsæfingar.

Blokkun á beta-2 viðtökum er orsök margra af aukaverkunum lyfsins svo sem berkjuþrengingu, blóðsykurfalli og almennri æðaþrengingu. Þessi atriði eiga sjálfsagt þátt í þreyttu og þróttleysi sem inntaka lyfsins getur valdið. Þessi aukaverkun er þó oftar en ekki tímabundin.

Ef stutt er síðan þú byrjaðir að taka inn propranolol ættirðu að gefa þessu smá tíma í viðbót (2-3 vikur) því oft minnka og jafnvel hverfa þessar aukaverkanir jafnt og þétt, þ.e. líkaminn hefur leiðir til að takast á við þær. Ef þetta lagast ekki og er að há þér ættirðu að nefna þetta við lækninn þinn því hugsanlega þyrfti að breyta skammtinum en einnig eru til sérhæfðir beta blokkarar sem virka nánast eingöngu á beta-1 viðtakana í hjartanu. Þó skal hafa í huga að þeir eru heldur ekki lausir við þessa aukaverkun.

Bestu kveðjur,

Þórir Benediktsson,
Lyfjafræðingur