Þjáist af ristilkrampa – með hvaða mataræði mælir þú?

Spurning:

Sæll.

Ég myndi gjarnan vilja vita með hvernig mataræði þið mælið fyrir einstakling sem þjáist af ristilkrömpum. Suma daga held ég mjög litlu niðri það rennur nánast allt saman í gegn. Hvað er best fyrir mig að borða og hvað á ég helst að forðast. Ef þið eigið svo einhver góð ráð um hvernig best væri að lifa með þessum óþolandi ristilkrömpum og öllu því sem þeim fylgja yrði ég afar sæll og glaður.

Svar:

Komdu Sæll.

Ef allt er með felldu þoka reglulegar, samhæfðar samdráttarbylgjur garnainnihaldinu áleiðis. En við ristilkrampa verða bylgjurnar óreglulegar og ósamhæfðar og rennsli garnainnihaldsins truflast. Að ég best veit er orsök sjúkdómsins ekki fyllilega þekkt en líklegt má telja að orsakirnar geti verið margar. Þannig eru sumir sem telja að sálrænar ástæður geti verið undirrót sjúkdómsins vegna þess að einkennin vaxa samfara streitu. Helstu einkenni sjúkdómsins eru annað hvort niðurgangur eða hægðatregða. Þessu fylgja krampakenndir verkir, oftast nær neðarlega í kviðarholi.

Áður en ég bendi á leiðir sem gætu gagnast vil ég taka fram að mikilvægt er að leita sér upplýsinga hjá viðeigandi sérfræðingi, eins og sérfræðingi í meltingarsjúkdómum.

Sjálfshjálparleiðir sem hægt er að grípa til: Ef sýnt er að streita skiptir máli er augljóslega mikilvægt að temja sér streituminni lífsstíl. Hægara sagt en gert segir nú einhver og það réttilega! En það sakar ekki að reyna. Reglubundin „hófleg” líkamsþjálfun og ástundun jóga getur komið að gagni til að draga úr streitu. Hvað varðar mataræði er mikilvægt að borða reglulega yfir daginn – frekar lítið í einu og oftar en mikið í einu og sjaldan. Óhófleg fituneysla, eins og á brösuðum mat, gerir einkennin oft verri og einnig virðast sumir vera viðkvæmir gagnvart mikilli neyslu á hráu grænmeti. Aftur á móti hefur trefjaefnaríkt fæði reynst hjálplegt í meðferð margra sem þjást af ristilkrampa. En dæmi um trefjaefnaríkt fæði er m.a. grófkornmeti margs konar og ávextir. Sveskjurnar eru alltaf vinsælar! Einnig má geta þess að þeir sem drekka áfengi og reykja geta oft hjálpað sér með því að draga úr áfengisdrykkju og hætta reykingum.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur