Blæðingastopp eftir fæðingu?

Spurning:
Ég átti barn fyrir 61/2 mánuði síðan og fékk smá blæðingar eftir hreinsunina eftir fæðinguna en eftir það hef ég ekki byrjað á blæðingu (er ekki ófrísk). Getur það verið brjóstagjöfin og pillan sem valda því? Ég er á pillu sem heitir Cerazette og það er sagt að það megi taka hana án 7 daga hléa, er það rétt og má ég gera hlé á henni og getur maður fitnað af henni? Síðan hef ég verið alltaf þreytt, þyrst og með stundum stöðugan verk í vinstri síðunni og fæ öðru hvoru eins og að hjartað slái hraðar (er með lágan blóðþrýsting). Er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggur af?

Kveðja,
Þriggja barna móðir.

Svar:
Það er algengt að konur hafi ekki blæðingar fyrstu mánuðina eftir fæðingu þegar þær hafa barnið sitt á brjósti. Pilluna er þér alveg óhætt að taka án hléa og þá kemur heldur engin blæðing þar sem hormónamagnið helst jafnt í líkamanum. Varðandi óþægindi þín teldi ég rétt að þú talaðir við heimilislækninn þinn um þetta því svona einkenni geta verið merki um undirliggjandi sjúkdóm þótt oftast sé skýringin bara eðlileg þreyta vegna umönnunnar ungbarns.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir