Blæðingastopp – en ekki ófrísk

Spurning:

Góðan daginn Arnar.

Ég er 29 ára og á í vandræðum með blæðingarnar. Hvað getur valdið stöðvun á blæðingum annað en þungun? Ég hef ekki verið á blæðingum í bráðum 3 mánuði. Ég hef tekið þungunarpróf tvisvar og hefur það verið neikvætt í bæði skiptin. Ég hef fengið verki annað slagið og þá all kröftuga en ekki kemur neitt blóð. Eins þegar ég er búin í baði þá virðist endalaust renna vatn úr leggöngunum þegar ég stend upp. Ég fann ekki fyrir því áður. Maginn á mér er útþaninn og grjótharður. Ég átti barn fyrir rúmu ári síðan en hann var tekin með keisaraskurði þar sem útvíkkunin stöðvaðist í sex. Ég veit ekki hvort það kemur þessu nokkuð við en ég vil láta þessar upplýsingar fylgja.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Egglos getur dottið niður í stuttan eða lengri tíma. Það er ekki neitt sem þarf að óttast, en ef þú ert illa haldin væri rétt að skoða þig. Þetta með vatnsrennslið þyrfti líka að metast við skoðun, þó það sé einnig hættulaust, en hins vegar hvimleitt.

Bestu kveðjur.
Arnar Hauksson dr. med.