Blæðingatruflanir

Fyrirspurn:


Góða kvöldið.
Ég var að velta því fyrir mér:
Nú er ég búin að vera í 4 ár á Depo Provera getnaðarvarnasprautunni. Það er rúm vika síðan að ég hætti, þ.e.a.s, það er rúm vika síðan áhrif síðustu sprautu ættu að hafa  hætt að virka.
Hvað er eðlilegt að það líði langur tími þar til blæðingar byrja aftur ? Nú var ég ekkert á blæðingum öll þessi 4 ár, en tíðahringurinn hjá mér var mjög eðlilegur fram að því að ég fór að fá sprautuna.

Kær kveðja.

Svar:


Komdu sæl og þakka þér fyrir spurninguna,

Blæðingatruflanir eru algengar eftir notkun á Depo Provera og samkvæmt rannsóknum geta liðið 9-10 mánuðir þar til kona verður frjó.
Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda geta 83% kvenna búist við að verða þungaðar innan árs frá því að notkun lyfsins er hætt. Í óháðri rannsókn kom fram að 18 mánuðum eftir að notkun er hætt er frjósemi orðin sambærileg og hjá konum sem hafa ekki notað Depo Provera. Þú ættir þó að nota aðrar getnaðarvarnir ef þú ert ekki að reyna að verða þunguð.
Mig langar líka að minnast á að notkun Depo Provera hefur verið tengd tapi á beinmassa, sem svo getur aukið líkur á beinþynningu síðar meir. Það er því mikilvægt fyrir konur sem notað hafa lyfið að huga að því að nægilegt kalk sé í matnum og að þær fái holla hreyfingu sem styrkir beinin. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir konur sem hafa lága líkamsþyngd.

Með kærri kveðju,
Ragnheiður Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðngur