Blóðflokkar og barneignir?

Spurning:
Kæri doktor.isÉg er 25 ára kona í sambúð og við erum farin að hugsa um að stækka fjölskylduna. En ég er aðeins hrædd við það af því ég veit ekki hvernig blóðflokkar okkar passa saman. Ég er í AB+ en unnusti minn er í O blóðflokki, ég er ekki viss á því hvort það er + eða -. Hvernig kemur það út ef þessir tveir blóðflokkar mætast og blandast? Mér finnst eins og ég hafi heyrt að það mætti ekki blanda þeim saman en ég veit það samt ekki. Mér þætti voða vænt um að fá svar en það liggur ekki á því.
Takk fyrir mig

Svar:
Blóð verðandi móður og blóð verðandi föður blandast ekki við frjóvgun. Það sem blandast er erfðaefnið sem faðir og móðir leggja til fóstursins. Þótt fóstrið verði í öðrum blóðflokki en móðirin er ekki hægt að segja að blóðflokkarnir blandist þar sem blóð fóstursins kemst ekki beint í snertingu við blóð móðurinnar. Milli fósturblóðs og móðurblóðs er himna í fylgjunni sem skilur blóðrásirnar að. Það er því mjög sjaldgæft að blóðflokkamisræmi sé vegna ABO flokka. Algengara er að misræmi skapist vegna Rhesus undirflokksins og þá yfirleitt vegna þess að konan er Rh neikvæð en maðurinn Rh pósitívur. Með fyrsta barn skiptir þetta hins vegar yfirleitt engu máli – hættan eykst hjá Rh- konu við fleiri meðgöngur með börn Rh+ manns. En þú þarft ekkert að vera að hugsa um þetta þar sem þú ert Rh pósitív.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir