Blóðlitað sæði?

Spurning:
Ég er á sextugsaldri. Hvað er hugsanlega að þegar kemur blóð kemur við sáðlát eftir samfarir

Svar:
Blóðlitað sæði (sæðisblæðing) er nokkuð algengt fyrirbæri og yfirleitt hættulaust hjá flestum aldurshópum. Hjá mörgum kemur þetta fyrir oftar en einu sinni og er yfirleitt án annarra einkenna. Oftast er engin ein ákveðin orsök en gjarnan áverki á slímhúð þvagrásar, stundum sýking eða bólga í blöðruhálskirtli, sáðblöðrum, eistum eða þvagrás. Blóðþynningarlyf geta valdið slíku sem og sýnataka frá blöðruhálskirtli. Yfirleitt hverfur þetta af sjálfu sér og þá fljótlega, en ástandið getur þó verið slitrótt. Mikilvægt er samt sem áður að láta lækni skoða sig og þarf þá m.a. að útiloka blóðmigu og sýkingu samfara þessu, þreifa á blöðruhálskirtli, en frekari rannsókn er oftast óþörf. Flestum nægja ráðleggingar en sérhæfð meðferð fer eftir undirliggjandi orsök. Krabbamein í blöðruhálskirtli er afar sjaldan orsök fyrir blóðlituðu sæði. Bestu kv.,Valur Þór MarteinssonYfirlæknir þvagfæraskurðlækninga FSA