BMI og fituhlutfall í líkamanum?

Spurning:

Sæl.

Ég var að reikna út BMI vægi mitt á vefnum hjá ykkur en það stenst ekki. Ég hef verið í ákveðnu heilsuátaki í u.þ.b. mánuð og þann 30. ágúst fór er í mjög ítarlega skoðun og nákvæma fitumælingu (merktur með penna út og suður og mældur með alls konar tækjum hér og þar). Þar kom frá að fituhlutfall mitt væri í kringum 24% en á vefnum ykkar kom 36 prósent í dag. Ef eitthvað er þá ætti hlutfallið að hafa farið minnkandi síðan 30. ágúst. Hvernig stendur á þessu?

Kveðja,

Svar:

Líkamsþyngdarstuðull (BMI) segir ekkert til um fituhlutfall í líkamanum. Aðeins er miðað við hæð og þyngd viðkomnandi og er BMI notað sem tæki til að meta offitu. Það er hins vegar þannig að menn eru mismunandi hvað varðar fituhlutfall og hlutfall vöðva í líkamanum og vöðvar vega þyngra en fita. Þannig getur mjög vel þjálfaður íþróttamaður verið með BMI yfir 25 án þess að teljast of feitur. Almennt er það þó þannig að það er fylgni milli þess að vera með hátt BMI og hafa hátt fituhlutfall í líkamanum. Það getur því alveg staðist að þú sért með BMI = 36 og fituhlutfall í líkamanum kringum 24%. Æskilegt fituhlutfall í líkama karla er á bilinu 10-18%. Kjörþyngdarbil (BMI) er hins vegar annað mál og miðast kjörþyngd við BMI 18,5-24,9 (sjá töflu neðan við BMI prófið).

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur