Bólgur og sýkingar í blöðruhálskirtli?

Spurning:
Ég er með fyrirspurn varðandi sýkingu í blöðruhálskirtli. Ég hef verið að taka inn fúkkalyf síðan í lok des. og þar til fyrir ca. hálfum mánuði. Ég náði mér nokkuð góðum í lok meðferðar. Ég hef fundið fyrir óþægindum í öðru eistanu allan tímann og það náði ekki að lagast almennilega á með á meðferðinni stóð og nú er ég farinn að finna aðeins fyrir einkennum sem voru vegna sýkingarinnar í þessum blessaða kirtli og virðist þetta verið að fara aðeins af stað aftur.
Sérfræðingurinn sem skoðaði mig talaði um bólgur í eista – eitthvað sem ég man ekki og gæti ekki haft eftir. Ég hef verið að reyna að þreifa þetta sjálfur, eini munurinn sem ég finn á eistunum er að pungurinn er aðeins siginn þeim megin sem eymslin eru og það virðist vera sem aftarlega að innanverðu sé meiri fyrirferð í einhverju sem tengist þarna inn á eistað en ég finn þó fyrir þessari sömu tengingu í hinu eistanu en það virðist ekki vera alveg sama fyrirferð eða bólga. Þarf ég að hafa áhyggjur af þessum eymslum eða á ég að fara og leysa út lyfseðilinn sem sérfræðingurinn lét mig hafa til að nota ef þetta tæki sig upp aftur? Með þökk.

Svar:
Bólgur og sýkingar í blöðruhálskirtli eru afar þrálát og algeng vandamál og margt á huldu um orsakir og meðferð. Ég hygg að best væri fyrir þig að hafa samband við sama lækni að nýju og láta endurmeta ástandið þar sem flestir verða all góðir eftir svo langa meðferð sem þú hefur fengið. Í millitíðinni er rétt að halda áfram sömu meðferð og þú nefnir og ef þú ert í e-m vafa um að fyrirferðin sé í eistanu sjálfu, þá ættir þú að snarast til læknis hið fyrsta. Lýsing þín bendir þó fremur til þess að um bólgu í eistalyppu sé að ræða. Batahorfur sjúklinga með bólgur í blöðruhálskirtli eru mjög breytilegar, en flestir verða góðir smám saman af meðferð og ráðleggingum læknis.Bestu kveðjur,Valur Þór Marteinsson