Breytist kynlífslöngun við legnám?

Spurning:

Sæll Arnar.

Ég skrifa þetta bréf vegna mágkonu minnar sem á að fara í legnámsaðgerð. Það á að taka úr henni legið vegna mikilla blæðinga og verkja sem hún hefur haft undanfarin ár (eggjastokkarnir verða ekki teknir).

Það er ekkert búið að upplýsa hana um hvaða afleiðingar þessi aðgerð geti haft, annað en það að hún muni ekki geta átt börn. Það sem ég hef áhyggjur af, er að þegar legið er tekið úr konum, þó svo að eggjastokkarnir séu skildir eftir, þá muni konan að miklu leyti missa kynlífslöngunina. Eru einhverjar líkur á því að eggjastokkarnir verði teknir, þó svo að það eigi ekki að gera það í upphafi?

Ef legið verður tekið úr henni, verður eitthvað gert til að hjálpa henni að framleiða karlkynshormónið? Þarf hún að vera á hormónapillum alla ævi og ef svo er, er það þá allt í lagi? Verður hún einhverntímann sú sama í sambandi við kynlíf? Af hverju eru konur ekki upplýstar um þessi mál hjá lækninum sínum? Eru þetta óþarfa áhyggjur hjá mér, verður hún kannski bara sú sama?

Með von um að þú getir varpað ljósi á þessar vangaveltur mínar, til að ég geti komið því til skila.

Kær kveðja.

Svar:

Kæri fyrirspyrjandi.

Þetta bréf hefði e.t.v. ekki þurft að skrifa ef eins og þú segir í lokin: Hvers vegna o.s.frv. Því verður hún mágkona þín að svara, þetta er jú hennar læknir. Kynlífslöngun breytist ekkert (á ekki að gera það) við það að leg sé tekið. Enginn nema sá læknir sem ákvað aðgerðina getur sagt henni hvort líkur séu á því að hún missi eggjastokkana. Það er hins vegar mjög sjaldgæft að taka þurfi þá, hafi það ekki verið ákveðið fyrirfram. Þeir eru þá einungis teknir ef grunur reynist í aðgerðinni sjálfri, að kominn sé æxlisvöxtur í þá.

Hormónagjöf er síðan umræðuefni eftir aðgerð hafi það ekki verið tekið fyrir – fyrir aðgerð.

Vona hún vinkona þín spyrji nú sjálf og gangi ykkur vel.
Arnar Hauksson dr. med.