Brjóstagjafavandamál

Spurning:
Barnið mitt er núna 1 og háfls mánaðar gamalt og hún getur sogið brjóstið klukkutímum saman og virðist aldrei ætla að verða södd (samt er hún að sjúga) og er þetta búið að vera svona síðan á annarri viku. Ljósmóðirin sagði mér að ég væri að gera allt rétt í sambandi með brjóstagjöfina, og virðist þetta ekki skána hún vill alltaf meir (ég veit að sum börn nota brjósti sem snuð eins og okkar gerir en ég er að segja þér það hún sleppir ekki á mér brjóstinu). Ég var að spá í hvort að það væri kannski of lítið streymi úr brjóstinu og hvort þú eygir einhver ráð til að koma henni á snuð (við höfum prófað allar tegundir fyrir hennar aldur).
Með fyrirfram þökkum.

Svar:
Brjóstagjafarvandamál sem þessi er erfitt að leysa á netinu og væri réttast fyrir þig að biðja ljósmóðurina eða hjúkrunarfræðinginn í ungbarnaverndinni að meta sog barnsins og mjaltatækni. Þú getur þess ekki hvort barnið er að þyngjast eðlilega. Algengasta skýringin á svona atferli er að barnið fær ekki tækifæri til, eða sýgur ekki rétt til að ná að mjólka til sín rjómann sem kemur síðast og er því alltaf að drekka þunnu mjólkina sem bara lekur úr brjóstinu. Til að meta það þarf að skoða hvernig barnið tekur brjóstið og sýgur. Ennfremur má vera að snuðnotkun hafi ruglað sogtæknina þannig að barnið sjúgi brjóst eins og snuð og nái ekki að mjólka það og fái þannig ekki nóg. Besta ráðið er að sleppa alfarið snuði og brjóstahlíf meðan barnið er að læra að sjúga almennilega. Pela ætti heldur aldrei að gefa ungu brjóstabarni þótt stærri börn geti ráðið við umskiptin milli pela og brjósts einstöku sinnum.

Til að fá í þetta botn verður manneskja með reynslu í meðferð brjóstagjafarvandamála að fylgjast með brjóstagjöfinni og best til þess fallinn er brjóstagjafarráðgjafi, ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur með reynslu í ungbarnavernd. Á LSH er starfandi brjóstagjafarráðgjafi sem þú getur leitað til alla virka daga. Prófaðu að ræða við hana eða hjúkrunarfræðinginn þinn í ungbarnaverndinni.

Kveðja
Dagný Zoega, ljósmóðir