Brjóstagjöf á meðgöngu?

Spurning:
Mig langar til að vita hvort konur sem eru með barn á brjósti og verða ófrískar aftur á meðan brjóstagjöf stendur verði að hætta með barnið á brjósti? Er eitthvað sérstakt sem við þurfum að hafa í huga? Allar upplýsingar vel þegnar.

Svar:
Það er yfirleitt ekki þörf á að hætta að gefa barnið brjóst þótt móðirin verði aftur barnshafandi. Þó ber að hafa í huga að ef næringarástand móður er ekki nægilega gott getur brjóstagjöfin tekið frá barninu sem er að vaxa í móðurkvið, ásamt því að konan verður útsettari fyrir næringarskorti. Við brjóstagjöf þarf kona aukalega 3-500 hitaeiningar og við það bætist að á meðgöngu þarf konan 300 hitaeiningar til viðbótar. Þess vegna þarf kona sem er ólétt með barn á brjósti 6-800 hitaeiningum meira en venjulega, í allt 2600-2800 he. Best er að þessar hitaeiningar komi sem mest úr mat eins og kjöti, fiski, eggjum, mjólkurvörum og korni. Þær eru próteinríkar og gefa gott byggingarefni í bæði börnin og mömmuna. Svo er nauðsynlegt að taka lýsi eða fjölvítamín og gæta þess að fá a.m.k. 600 míkrog. af Fólínsýru. Þegar líður að fæðingu breytist brjóstamjólkin aftur í broddmjólk og þá fúlsa mörg börn við henni því bragðið og þykktin er öðruvísi. Væntanlega verður unginn þá farinn að borða fjölbreyttan mat og getur þess vegna hætt á brjósti. En ef bæði börnin verða á brjósti þarf að gæta þess að yngra barnið hafi alltaf forgang á brjóstið og það eldra fái ekki fyrr en það yngra er mett. Og áfram þarf þá að borða 2600-2800 hitaeiningar.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir