Brjóstagjöf: Má ég taka pilluna?

Spurning:

Halló!

Mig vantar upplýsingar um notkun pillunnar, ég er með 2 1/2 mánaðargamalt barn á brjósti. Ég er nýflutt til Danmerkur og læknirinn minn hér talar ekki mikla ensku og ég ekki dönsku svo ég er í vandræðum. Hann lét mig hafa lyfseðil fyrir Mercilon pillunni. Er sú pilla í lagi með brjóstagjöf? Er einhver önnur pilla betri? Og hvenær á ég að taka hana fyrst? Það stendur á fyrsta degi blæðinga en ég hef ekki haft neinar blæðingar síðan ég átti barnið svo ég er ekki viss um hvað ég á að gera.

Svar:

Sæl og til hamingju með barnið.

Það er rétt hjá þér að það getur verið vandkvæðum háð að nota getnaðarvarnapillur á meðan á brjóstagjöf stendur. Þær eiga það til að minnka mjólkurmyndun – samsetta pillan (estrógen+prógesteron) þó heldur meira en einfalda pillan/minipillan (einungis prógesteron). Mercilon er samsett pilla, þótt reyndar sé fremur lítið magn estrógens í henni. E.t.v. væri betra fyrir þig að taka einfalda pillu eins og Exlutona, þótt hún veiti ekki eins góða vörn gegn getnaði (u.þ.b. 98% örugg). Á henni þarftu heldur ekki að taka blæðingahlé heldur tekur hana bara áfram þar til þú ætlar næst að eignast barn. Þótt þú sért enn ekki farin að fá blæðingar eftir fæðinguna (það geta liðið margir mánuðir) þá getur þú farið strax á pilluna. Gættu þess bara að hún þarf a.m.k. 14 daga til að byggja upp öryggi fyrir getnaði og á meðan þarf að nota smokk við samfarir. Til nánari glöggvunar ráðlegg ég þér að fletta í Lyfjabókinni á Doktor.is.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir