Brjóstagjöf og prednisolon

Spurning:

Ég er mikill astma- og ofnæmissjúklingur og er nýbúin að eignast barn, sem er þriggja mánaða. Brjóstagjöf hefur gengið vel þar til núna er ég fékk alveg svakalegt lungnakvef og svo slæmt að ég get varla gengið um íbúðina mína með barnið í fanginu. Ég hef tekið inn Prednisolon við þessum köstum en mér var sagt að ég mætti ekki vera með barn á brjósti og taka inn Prednisolon. Mér líður alveg herfilega og núna er ég að gera upp við mig hvort ég eigi að hætta með brjóstagjöfina og taka inn Prednisolon.
Hvað get ég gert?

Svar:

Sæl.

Þetta eru afarkostir sem þér eru settir. Barninu er mikilvægt að fá móðurmjólkina en því er líka mikilvægt að eiga móður sem getur annast það. Ef þú ert svo slæm í lungunum að þú átt erfitt með að annast barnið þitt er fyrir mestu að þú náir heilsu. Á hinn bóginn er vitaskuld leitt að þurfa að hætta brjóstagjöf sem gengur vel. En það eru e.t.v. aðrir möguleikar í stöðunni. Hvað myndir þú t.a.m. þurfa að vera lengi á Prednisolon til að ná þér upp úr lungnakvefinu? Ef einungis er um eina til tvær vikur að ræða gætir þú leigt þér mjaltavél og mjólkað þig til að halda mjólkurmynduninni gangandi þar til þú getur aftur farið að gefa brjóst. Barnið fengi þá þurrmjólkurbland þennan tíma en gæti svo aftur farið á brjóst þegar lyfjakúrnum lýkur. Ef þú notar túttu sem líkist geirvörtum þínum eru minni líkur á að barnið hafni brjóstinu eftir pelann og ef einhver vandamál koma upp með höfnun og sogvillu má taka á þeim þegar þar að kemur. Það mikilvæga er að þá ertu þó búin að reyna hvað þú getur að halda í brjóstagjöfina og ert sáttari við ef þú þarft að hætta. Til að halda mjólkinni þyrftir þú að mjólka þig 5-6 sinnum á dag, hvort brjóst tvisvar þar til hættir að renna (eða nota tvöfalt mjaltasett), u.þ.b. 15 mínútur hvort brjóst. Mjaltavél geturðu e.t.v. fengið hjá heilsugæslustöðinni þinni eða á mjaltavélaleigu, t.d. Garúnu. Ef þér líst ekkert á að mjólka þig er um fátt annað að velja en gefast upp fyrir lungunum þínum og fá þig góða af lungnakvefinu til að þú getir sinnt barninu þínu almennilega. Þú ert þó búin að gefa því bestu hugsanlegu næringuna í þrjá mánuði og getur eftir sem áður veitt því ástúð og hlýju þótt þú gefir því pela.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir