Brjóstagjöf og verkir í brjóstum?

Spurning:
Í haust var ég svo heppin að eignast heilbrigðan dreng. Viku seinna var ég orðin veik í brjóstum. Ég fékk mikla stálma (þriðja barn, ekki fengið svona slæma stálma áður). Í nóv. var ég með slæma verki í hægra brjósti, sérstaklega við gjöf og gekk svona þar til að ég leitaði til brjóstaráðgjafa á Lsp. sem greindi þetta sem sveppasýkingu og var ég sett á Mycostatin til að bera á vörtuna og í munn barnsins. 4 dögum seinna var ég svo kvalin og komin með hita, þrota, bjúg og hvellrautt brjóst og hita í því og leitaði niður á Hreiður. Þar var ég mjólkuð og sett á t.Staklox, beðin að koma aftur 7 klst. seinna í aðra mjólkun, ekkert hafði breyst.

Daginn eftir fer ég sárkvalin niður á Lsp. og er lögð inn með penicillin i.v. Reynd voru 4 lyf áður en það hitti á það rétta, engin breyting varð á brjóstinu (rautt, heitt, bjúgur og mikil eymsli við gjöf) almennilega fyrr en ég var ,,þurrkuð" upp. Þá send heim, eftir vikudvöl, með penicillin í töfluformi og 5 dögum seinna prófaði ég að gefa drengnum brjóst eftir að hafa fengið leyfi brjóstaráðgjafa og hann tekur brjóstið og fær smámjólk þar í dag ásamt pela. Viku eftir að ég var útskrifuð af Lsp. skoðaði annar brjóstaráðgjafi mig sem sagði mig ennþá veika og aftur var ég sett á t. Dalacin.

Þegar ég bað heimilislækninn minn um að skoða mig var hann hissa á niðurstöðum 1. ræktunar sem var tekin (streptococca veridans og staph.cocca) og sagði þetta vera venjulegar húðfrumur og því er ég enn engu nær hvað sé að mér því ég er enn með húðbreytingu á brjóstinu og eymsli. Ég fer reyndar í ómskoðun í næstu viku vegna hersli sem finnst undir geirvörtu og gengur inn í brjóstið, ég er alltaf þreytt. Hvað getur þú ímyndað þér að þetta sé? Er ég að gera honum bjarnargreiða með því að leyfa honum að fá smá brjóstamjólk og pela? Ef svo óheppilega vilji til að þetta sé eitthvað slæmt í brjóstinu á ég þá að hætta með hann alveg á brjósti?

Svar:
Það sem þú lýsir er dæmigert fyrir sýkingu í brjósti og herslið undir geirvörtunni gæti verið aflokaður graftarpollur sem þarf að hleypa úr. Algengasti orsakavaldur slíkra sýkinga eru húðbakteríur sem fjölga sér inni í brjóstinu þar sem þær valda usla þótt þær séu skaðlausar á heilbrigðri húð. Þú þarft væntanlega að vera eitthvað áfram á sýklalyfjum þar til búið er að komast fyrir herslið í brjóstinu.

Það gerir drengnum ekkert til að fá brjóstið þótt þú takir valin sýklalyf. Spurningin er hins vegar hvort æskilegt sé að hefja mikla mjólkurframleiðslu á nýjan leik fyrr en þú ert orðin góð í brjóstinu. Þú getur þó gefið heila brjóstið að vild og aukið þar mjólkurmyndunina eins og þarf og jafnvel komist upp í fulla brjóstagjöf á öðru brjóstinu. Það kostar þó töluverða vinnu og líklega best að þú takir þetta rólega þar til þú hefur jafnað þig. Vertu dugleg að drekka vatn og borða hollan mat, taktu alhliða vítamín, haltu á þér hita og hvíldu þig vel og mikið. Þá ertu fljótari að jafna þig og betur í stakk búin til að takast á við að hefja aftur brjóstagjöf.

Gangi þér vel, Dagný Zoega, ljósmóðir