Brjóstagjöf – upplýsingar

Spurning:

Kæra Dagný!

Dóttir mín er 8 vikna og brjóstagjöfin hefur gengið vel þar til fyrir einni og hálfri viku síðan. Nú er allt of lítið af mjólk í brjóstunum og mér var sagt að leggja hana bara oftar á brjóstið. Hún vill það ekki nema á 4 tíma fresti þar sem að ég hef verið að gefa henni ábót því annars grenjar hún bara stanslaust og sýgur og sýgur en fær ekki neitt. Getur framleiðslan aukist ef ég nota Avent isis brjóstapumpuna inn á milli? Eða hefurðu einhver önnur ráð? Ég hef verið að prufa að pumpa og það er ekki bara að brjóstin séu orðin mjúk heldur kemur svo lítið í einu með pumpunni, en áður gat ég fyllt heilan pela (150 ml). Núna koma ekki nema ca. 40-60 ml í einu á ca. 3-4 tíma fresti og enn minna ef ég pumpa oftar! Þarf ég að drekka oftar eða er eitthvað sérstakt sem er gott að drekka til að hjálpa til?

Ein ráðalaus.

Svar:

Kæra ráðalaus.

Þú segir mjólkina hafa minnkað fyrir einni og hálfri viku síðan. Hvað gerðist þá? Varstu farin að gefa dóttur þinni ábót þegar mjólkin minnkaði?
Það er líklegasta skýringin á mjólkurleysinu. Sennilega hefur dóttir þín verið að fara í gegnum 6 vikna vaxtarsprettinn og þar af leiðandi þurft að vera svolítið mikið á brjósti til að ná upp mjólkurmynduninni hjá þér. Þegar þú svo fórst að gefa ábót fengu brjóstin ekki þá örvun sem þurfti og mjólkin minnkaði í stað þess að aukast. Ef stúlkan sefur í 4 tíma milli gjafa ertu líklega að gefa henni of mikla ábót. Prófaðu að minnka ábótina um helming og lofa henni að sjúga brjóstin til skiptis nokkrum sinnum í hverri gjöf – það eykur mjólkurmyndunina og hún fær þá rjómann sem veldur betur seddutilfinningu (skiptu um brjóst þegar hún fer að láta illa á því – á meðan hún sýgur úr öðru brjóstinu myndast mjólk í hinu og því hraðar sem hún tekur þau oftar). Reyndu að láta ekki líða meira en 2 tíma milli gjafa næstu daga og vertu sem mest með dóttur þína hjá þér. Taktu símann úr sambandi, afþakkaðu heimsóknir og vertu bara heima meðan þú einbeitir þér að þessu verkefni. Hvað varðar það að mjólka sig – jú það getur aukið mjólkurmyndun en það getur líka minnkað hana vegna þess hve þreytandi og stressandi það er. Oftast gefst best að láta barnið bara stjórna mjólkurframboðinu með sogi sínu. Það eru til alls kyns mjólkurte sem fást í heilsubúðum og stundum eru þau til bóta. Einnig eru mjólkurörvandi efni í maltöli og pilsner en mikið af þeim drykkjum geta valdið magaóþægindum, bæði hjá móður og barni. Gættu þess þó að drekka vel – mest af hreinu vatni – 2,5-3 lítra á dag.

Gangi þér vel,

Dagný Zoega, ljósmóðir