Brjóstaminnkun og brjóstagjöf?

Spurning:
Ég vildi forvitnast nánar um brjóstaminnkun. Ég er núna á biðlista eftir aðgerð, en vildi fá að vita með brjóstagjöf. Ég er 24 ára og barnlaus. Ef ég fer í þessa aðgerð áður en ég eignast barn, get ég þá ekki verið með barn á brjósti? Fyrir utan svæfinguna er þetta þá hættuleg aðgerð? Þegar ég fór á biðlista fyrir 1og hálfu ári síðan þá hef ég þyngst um ca. 8-10 kg., mun það hafa einhver áhrif á þessa aðgerð?
Takk fyrir.

Svar:
Það fer töluvert eftir eðli og umfangi aðgerðarinnar og því hversu mikið taugar til geirvörtu skaðast hvort konu tekst að halda uppi nægri mjólkurmyndun til að barnið þrífist. Talið er að um 50% kvenna geti að einhverju leyti brjóstfætt börn sín eftir brjóstaminnkun en þó fæstar að öllu leyti. Þar sem geirvörturnar eru skornar frá eru líkur á brjóstagjöf nær engar en ef geirvörturnar fá að halda mjókurgangakerfinu þá eru sæmilegar líkur á að brjóstagjöf geti a.m.k. hafist með sæmilegri mjólkurmyndun þótt síðar þurfi ábótargjöf. Allar aðgerðir bera í sér áhættu, ekki einungis vegna svæfingarinnar heldur einnig vegna möguleika á sýkingum og blóðreki. Því meiri fita sem er á líkamanum því meira er inngripið í aðgerðum og þar sem brjóstin eru mest fituvefur hafa þau vitaskuld safnað töluverðu á sig af þessari þyngdaraukningu. Ræddu þessi mál aftur við lýtalækninn og segðu honum að þú óskir eftir að brjóstfæða börnin þín. Kannski ræður hann þér að bíða með aðgerðina fram yfir barneignir.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir