Brjóstastækkunarefnið Erdic

Spurning:

Sæll Jón Pétur.

Mig langar að spyrja þig út í nýja brjóstastækkunarefnið Erdic. Er það satt að það valdi engum aukaverkunum? Þarf maður að taka efnið stanslaust inn eða virkar einn skammtur lengi? Myndir þú ráðleggja þeim konum sem áhuga hafa á efninu að taka það inn?

Takk fyrir.

Svar:

Sæl.

Erdic töflur innihalda (skv. framleiðanda):

Humla (Humulus lupulus) Þurrkaðir kvenaldinkollar af humli – jurt af hampætt sem er ræktuð hér til skrauts í görðum. Áhrif humla geta verið róandi og linað krampa í sléttum vöðvum. Jurtin inniheldur estrógen lík efni (plöntuestrógena).

Bókhveiti (Fagopyrum esculentum) – Kornjurt af súruætt. Bókhveiti getur haft áhrif á blóðþrýsting (lækkun) og æðaveggi (styrking) ásamt því að vera nærandi.

Fenniku (Foeniculum vulgare) – Evrópsk kryddjurt af sveipjurtaætt. Hefur virkað sem verk- og vindeyðandi, linað krampa ásamt því að auka mjólkurmyndun.

Rúg (Secale cereale) – Norræn korntegund.

Malt (álað og þurrkað bygg).

Bygg

L-Ornitine

Heildar sykrur: (43.9%)

Sterkja 35.3%

„jurta“ sykur 8.6%

Prótein 16.4%

Fita 1%

Trefjar 5.9%

Svona segja framleiðendur að Erdic eigi að virka:

Það á að auka vöxt kirtlavefs í brjóstunum með áreiti á viðtaka þar.

Þó svo að Erdic innihaldi ekkert estrógen né önnur hormón, platar plöntuestrógenið líkamann sem heldur að það sé estrógen.

Með því að herma eftir áhrifum estrógens, bregst líkami þinn við svipað og hann væri óléttur eða á gelgjuskeiðinu. Kirtlavefur byggist upp í brjóstunum.

Þegar þessi áhrif halda áfram verða brjóstin fyllri, stinnari og síðan stærri.

Virkni
Það er nokkuð ljóst, hvað sem öðru líður, að það er örugglega ekki hættulegt að taka þetta inn sé notkunarfyrirmælum fylgt eftir og þungaðar konur og konur með börn á brjósti eru ekki að taka þetta.
Áður en kynþroska er náð, eru brjóst kvenna lítil og kirtlakerfið er smátt líka. Það sem gerist við kynþroskann er að aukið estrógen veldur aukningu í vexti „gangakerfis“ brjóstanna en lítil þróun (stækkun) verður í kirtilblöðrunum. Mestur hluti brjóstastækkunarinnar á þessum tíma er vegna fituaukningar. Prógesterón seyti byrjar líka við kynþroskann (gulbússtig tíðarhringsins) og veldur það brjóstastækkun.
Við hvern tíðarhring verða sveiflur á stærð brjóstanna sem verða vegna breytinga í styrk estrógens og prógesteróns í blóði en þessar breytingar eru smávægilegar miðað við þá stækkun sem verður þegar þungun á sér stað. Sú stækkun verður vegna hás plasmastyrks af estrógeni, prógesteróni, prólaktíni og örvandi efna á mjólkurmyndun úr fylgjunni. Erdic, Vanity, EuroBust og fleiri slík efni sem ætluð eru til brjóstastækkunar virðast öll innihalda svipuð efni og þar eiga plöntuestrógenarnir að spila stæstu rulluna varðandi stækkun brjóstanna. Sumir framleiðendur, eins og t.d. Vanity, eru það kokhraustir að ábyrgjast 100% árangur og borga til baka ef ekki næst árangur (skv. þeirra skilmálum). Ef ég væri að selja svona vöru gæti ég ekki lofað svona miklu, því ef litið er til þess að þekktar verkanir, eða öllu heldur aukaverkanir, af lyfjum sem innihalda virka efnið estradíól (t.d. Estrofem, Evorel, Femanest og fl.) hafa ekki mikil áhrif á brjóst til stækkunar. Aðallega er um aukna brjóstaspennu að ræða. Þar sem plöntuestrógen er nánast með sömu verkanir nema bara veikari, hef ég efasemdir með verkun þessara vara. Ef þetta virkar er það bara besta mál en ég er ekki sannfærður. Þess ber þó að geta að þetta er bara mín skoðun og hún getur breyst ef sýnt er fram á virkni með góðum rannsóknum en ekki bara misgóðum blaðagreinum. Skv. framleiðanda þarf að taka efnið í töluverðan tíma, nokkra mánuði. En eftir að árangri er náð segja þeir að hætta megi töku efnisins og árangurinn haldist. Kostnaður við kúr sem á að skila árangri sýnist mér vera u.þ.b. 50-100 þúsund skv. verði í Svíþjóð.
Svona til gamans, ef ég ætti að mæla með þessum vörum gæti ég alveg eins sagt konum að drekka bara mikinn bjór! Hann er nefnilega búinn til úr vatni, malti og humlum.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur