Brjóstsviði á meðgöngu

Spurning:

Sæl.

Ég er komin 12 vikur á leið og hef verið með töluverðan brjóstsviða og uppþembu undanfarnar vikur. Ég var reyndar verri en ég er í dag, en nú er það aðallega brjóstsviðinn sem er að angra mig. Það virðist vera sama hvað ég borða hann kemur alltaf, bara mis mikið. Svo er alltaf eins og það sé fastur „köggull“ í hálsinum á mér og ég er sínartandi til þess að reyna að koma þessu niður. Ég fékk aldrei brjóstsviða áður en ég varð ófrísk. Ég hef verið að taka brjóstsviðatöflur (Revi.. og Alminox) og líka Gaviscon mixtúru. Mér finnst það hjálpa en bara í svo stuttan tíma. Ég er bryðjandi þessar tuggutöflur á nánast hverjum klukkutíma. Er eitthvað sem þú getur ráðlaggt mér að gera, kannski önnur lyf sem eru betri? Má ég búast við því að þetta verði svona út alla meðgönguna?

Ein „jórtrandi“

Svar:

Sæl.

Það er heldur hvimleitt að vera með brjóstsviða og erfitt að vinna á honum. Það er kannski ekki sniðugt að vera í sífellu að bryðja brjóstsviðatöflur því mikið magn af sýrubindandi lyfjum getur haft áhrif á aðra hluta meltingar eins og upptöku næringarefna. Fáein húsráð hafa gagnast konum til að koma í veg fyrir brjóstsviða og þar er fyrst að nefna að hækka höfðalagið frá brjóstbaki og upp úr þegar þú liggur og forðast að leggjast niður fyrr en a.m.k. tveim tímum eftir máltíð. Forðastu allan feitan og kryddaðan mat, kálmeti og baunir og borðaðu lítið í einu en oft. Kaffi, svart te og reykingar auka gjarnan á brjóstsviða. Mörgum gefst vel að borða eplahýði, ananas eða papayaávöxt eftir máltíðir til að hraða meltingu. Forðastu að drekka með máltíðum en drekktu þeim mun meira milli þeirra. Mörgum finnst gott að tyggja grænt Wrigleys tyggjó (það er satt) ef þú finnur það einhversstaðar. Kannski dugar eitthvað annað spearmint tyggjó, en Wrigleys er það sem margar konur hafa fengið bata af. Möndlur, fennel- og aníste geta einnig haft góð áhrif. Eins getur verið gott að fá sér ósætt jógúrt eða dálitla súrmjólk til að hjálpa við að koma stjórn á magasýrurnar.

Það náttúrulyf sem helst er notað við slæmum brjóstsviða kallast „slippery elm“ (Ulmus fulva á latínu) og er mögulegt að þú getir fengið það í heilsubúðum. Það á að vera óhætt fóstursins vegna að taka það. Því miður getur þetta ástand varað út meðgönguna en e.t.v. er þetta tímabundið hjá þér líkt og meðgönguógleðin fyrstu vikurnar. Sé svo gætirðu fengið hlé fljótlega og fram yfir miðja meðgöngu en þá máttu eiga von á brjóstsviðanum aftur.

Ég vona að eitthvað af þessu gagnist þér og þú eigir ánægjulega meðgöngu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir