Þunglyndi barnapíu?

Spurning:
Nýverið réði ég konu sem hefur nýlega komið inn í fjölskylduna til að gæta 4 mánaðar sonar míns. Nú hef ég hinsvegar komist að því að hún á við þunglyndi að stríða og notar við því daglega geðlyf. Einnig hefur hún tjáð mér sjálf að hún taki mikið af verkjalyfjum og svefnlyfjum. Þetta þunglyndi er vel sjáanlegt og lýsir það sér í reglulegum ,,fýluköstum” sem endast yfirleitt allan daginn og það er sama hvað ég reyni að vera indæl og nærgætin við hana þá virkar ekkert til að hressa hana við eða létta á henni. Ég veit að þetta er alvarlegur sjúkdómur sem erfitt er að ráða við og á hún alla mína samúð en ég hef nú miklar áhyggjur af barni mínu í hennar umsjá og vildi leita ykkar álits varðandi hvort skynsamlegt sé að skilja svo ungt barn eftir í hennar umsjá.

Svar:
Það skiptir miklu máli hvernig konan er að vinna í sínum málum og einnig hvernig stuðningurinn er í kringum viðkomandi. Það getur alveg átt sér stað að fólk sem þjáist af þunglyndi geti átt góð tímabil á milli sem það getur sinnt þeim störfum sem krafist er í umhverfinu en mikilvægt fyrir marga að vera í stuðningi t.d. viðtölum, lyfjameðferð eða öðru. Ég myndi byrja á að ræða þetta opinskátt við hana, segja frá vangaveltum þínum og ræða sameiginlega um hvaða leið þið sjáið vænlegasta. Eins og þú segir ert þú vön að nota ákveðna nærgætni sem er mjög góð í þessu tilfelli en allt í lagi að hafa ákveðni með. Ef þið kæmust að því að hún yrði að hætta er ágætt að hafa það með þeim formerkjum að þú gefir sjens á að það gæti verið hægt að ræða aðra möguleika (þ.e. hvað hún geti gert í staðinn) eða endurskoðun á ráðningu síðar. Barnið þitt er að sjálfsögðu það mikilvægasta í þessu samhengi og því mikilvægt að þú fylgir eftir þeim áhyggjum sem þú hefur og gerir þær ráðstafanir sem þú telur nauðsynlegar.

Ganig þér vel.

Kær kveðja,
Auður Axelsdóttir iðjuþjálfi Geðhjálp