Þunglyndi og svefnvandamál

Spurning:

Svefnvandamál.

Mig vantar upplýsingar á vandamáli sem ég hef. Málið er að ég virðist aldrei fá næga hvíld sama hversu lengi ég sef eða hversu snemma ég fer að sofa, allt sem ég hef reynt virðist ekki virka. Ég hef verið svona undanfarin 10 ár í það minnsta hugsa ég. Alla mína ævi hef ég sofið fast og ég virðist ekki losa svefn fyrr en vekjaraklukkan mín hringir en hana þarf ég að stilla helgar sem virka daga og yfirleitt þarf hún að hringja í svona hálftíma áður en ég vakna almennilega. Ég hef mjög lítið úthald er yfirleitt orðin uppgefin eftir 3-4 tíma. Ég hef átt við þunglyndi að stríða en ég held að það sé frekar afleiðing en orsök. Ég brotna saman þegar mér finnst ég ekki geta meira. Ég hef tvisvar reynt að leita til lækna, síðast var það síðastliðið vor og það eina sem þeir hafa áhuga á er að rannsaka blóðið í mér og þegar það er allt í lagi þá hafa þeir ekki meiri áhuga á þessu máli. Ég er utan af landi og hef ekki heimilislækni hér í Reykjavík og veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í þessu máli. Og þar sem þessi tvö skipti hafa leitt til þess að mér finnst þetta hafa verið afgreitt sem ímyndunarveiki þá ákvað ég að snúa mér til ykkar í von um góð ráð.

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Varðandi svefnvandamálið sem þú lýsir er beinast að þú leitir til sálfræðings í eftirgrennslan um hvort þarna sé um orsök eða afleiðingu þunglyndis sem þú hefur greinst með. Varðandi lýsingu þína að lítið þurfi út af að bregða til að þú brotnir er það vísbending um geðröskun sem ástæða er til að bera undir sérfræðing, þ.e. geðlækni. Í því sambandi bendi ég þér á að leita t.d. á bráðamóttöku Landspítalans við Hringbraut og óska þar eftir viðtali við vakthafndi lækni og/eða fá upplýsingar um hvar þú getir nálgast geðlækni sem næst þér. Úthaldsleysi er mjög líkleg afleiðing og hluti af þeim vítahring sem fólk oft og einatt upplifir þegar um geðraskanir er við að eiga og sjálfsagður hlutur að leita sér aðstoðar til að rjúfa þann hring og taka á fylgifiskunum hverjir svo sem þeir eru, skv. ráðleggingu þeirra sem til þekkja. Einnig get ég bent þér á starfandi sjálfshjálparhóp fólks sem hefur átt við þunglyndi að stríða og heldur reglubundna fundi hjá Geðhjálp að Túngötu 7 í Reykjavík. Í því sambandi er hægt að hringja á skrifstofu félagsins og fá frekari upplýsingar í síma 570 1700. Með von um að þetta verði þér til einhvers gagns sem fyrst.

Með kærri kveðju,
Sveinn Magnússon, framkv.stj. Geðhjálp