Þunglyndislyfið virkar ekki eins og vel og áður

Spurning:

Ég er búin að vera á þunglyndislyfinu Cipramil í rúma þrjá mánuði. Fljótlega eftir að ég byrjaði að taka lyfið fann ég mikinn mun á mér en nú finnst mér ég ekki finna eins mikinn mun. Er það eðlilegt?

Svar:

Meðferð með þunglyndislyfjum er einkennameðferð og það getur tekið 2-4 vikur að ná verkun. Þó svo að lyfjameðferðin sé að skila árangri geta geðsveiflur í einstaklingnum valdið því að honum líður misvel á meðferðartímanum. Meðferðin þarf að vara í nægilega langan tíma, t.d. 6 mánuði eða lengur, til að fyrirbyggja bakslag þegar lyfjatökunni er hætt. Í sama tilgangi er betra að minnka skammtana smám saman þegar hætta á á meðferðinni.

Ef lyfið er ekki að skila ásættanlegum árangri eða ef það veldur of miklum aukaverkunum er sjálfsagt að ræða það við lækni eða lyfjafræðing.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur