Þvagleki eða hvað?

Spurning:
Ég veit ekki hvað er að blöðrunni í mér núna. Ég fæ oft blöðrubólgu og ég hef fengið bótox í blöðru vegna ofvirkni blöðrunnar en hér kemur eitt sem slær öllu við og ég hef 3 sinnum verið í vandræðum með, þó með löngu millibili (og ekki veit ég af hverju eða hvað ég geri sem veldur þessu):

Ég hef 3 sinnum vaknað blaut (venjulega vakna ég ef ég þarf á klósett um nætur). Þá finn ég ekkert fyrir þegar það bara lekur stjórnlaust. Ég vakna við að lítið magn kemur en svo eykst það þegar ég er vakandi en ég finn ekki fyrir því, nema það að bletturinn á buxunum stækkar. Þetta gerðist einu sinni þegar ég var sofandi í sófanum heima og svo í annað skiptið í sumarbústað og þriðja í rútu með hópi fólks og alltaf, sem betur fer, tekst mér að fela þetta. Er oft að hugsa hvað ef mér tekst ekki að fela þetta í eitt skiptið????

Ég var sem betur fer í kápu þegar ég sofnaði þarna í rútunni, í útlöndum.

Kápan var síð en það er ekki hægt að lýsa því hvað mér leið illa, því það var langur tími þar til við fórum á hótelið. Það lak meira þegar ég stóð upp í rútunni. Það var komið niður á skálmar. Hvað gæti verið að? Þetta gerist sjaldan, en ég veit ekki af hverju þá. Gæti þetta verið enn ein sýkingin? Er það bótoxið sem lamar blöðruna stundum?

Ég sé eftir að hafa sagt mömmu frá þessu (systir mín heyrði líka) mér fannst þetta vandræðalegt fyrir þær. Þetta er enn greinilega feimnismál, þessi þvagleki. Þetta er eini staðurinn sem ég get sagt frá þessu því ég veit ég er að tala við sérfræðinga:) Já ég veit að þetta heitir þvagleki en ég er með bráðaþvagleka og þá kemur (eða kom áður en ég fékk bótox) skyndiþörf.

Þetta hefur greinilega verið hin tegundin af þvagleka (eða einhver önnur tegund af einhverju?) fyrirfram þakkir fyrir svar, A

Svar:
Sæl, svar mitt er svona:

Þetta eru nokkuð óvenjulegt einkennamynstur og sérstklega það ef þú hefur verið með blöðrubólgur en samt fengið Botox innsprautun í þvagblöðruna. Í þínu tilfelli er ekki um annað að ræða, en að hafa samband við þann sérfræðing sem meðhöndlaði þig með Botox. Hugsanlega þarf að gera sérstaka þvaglekarannsókn hjá þér í framhaldinu (þrýstingsmælingu), en fyrstu skrefin verða að athuga hvort þú hafir sýkingu og þá einnig hvernig blaðran tæmist.

Bestu kv.,
Valur Þór Marteinsson