Þyngdaraukning af lyfjum?

Spurning:

21 ára – kona

Góðan dag,

Ég er að "díla" við þunglyndi og kvíðaraskanir. Ég er á eftirtöldum lyfjum vegna þessara mála: Við kvíða: Seroquel 200mg 1st. að morgni og fyrir svefn, tafil Retard 1mg 4-5* á dag. Einnig þarf ég á svefnlyfi að halda tek tvær Imovane fyrir svefn. Auk þessa þarf ég að taka 50mg af Penergan 1 klst. fyrir áætlaðan svefntíma svo Imovanið svæfi mig. Ég er á Cymbalta 60mg út af þunglyndinu. Síðan er ég á getnaðarvörninni Microgyn.

En þessi lyfjaupptalning er ekki erindi mitt með þessum tölvupósti Áður en ég var sett á Cymbaltað var ég sett á Remeron smelt 45mg (byrjaði á því í byrjun september sl). Ég var á þessu lyfi í tvo mánuði og þyngdist um 24 kíló. Ég át ekki á mig kílóin, matarlystin jókst ekki frekar en á fyrri lyfjum það var efnaskiptakerfið sem "floppaði"(að sögn læknirs). Á þessum tíma gekk ég 8km daglega auk þess að fara í líkamsrækt 5-6 sinnum í viku.

Ég passaði líka upp á matarræðið, borðaði mikið af ávöxtum og grænmeti, einkum milli mála. Með kvöldmat hafði ég kjöt eða fisk 25% hitt var hrátt og léttsteikt grænmeti í ÍSÓ4 olíu. Auk þess borðaði ég pasta eða soðin hrísgrjón hvort um sig 1* í viku. Ég borðaði sex sinnum á dag . Ég drekki hvorki gosdrykki né áfeng, reyki ekki og borða ekki sætindi hvaða nafni sem þau nefnast.

Eftir að ég hætti á Remeroninu tókst mér að léttast fáein kíló.

Í byrjun janúar fór ég til hómopata sem og næringarráðgjafa því mér fannst undarlegt hvað mér gekk illa að léttast. Þá gekk ég 8-12km á dag og fór í ræktina 6 sinnum í viku. Hún tengdi mig við e-ð tölvuforrit sem fann út að ég mætti hvorki borða mjólkurvörur né vörur er innihéldu ger. Hún gaf mér ákveðinn matseðil sem ég hef fyglt strangt eftir síðan.

Á þessum tímapunkti ákvað ég að hætta í ræktinni, því ég léttist ekkert þar,þó ég gerði margskonar þol og styrkaræfingar. Ég ákvað að prófa þrenn æfingamyndbönd frá Ágústu Johnson en þau voru: Hámarksárangur, Magi, rass og læri og 10 mínútna lausnin. Auk þess að ganga áfram 8-12km á dag. En enn var sama sagan klóin hurfu mjög hægt. Þó ég gætti vel að matarræðinu. Borðaði sex sinnum á dag eins og hún hafði ráðlagt mér og fylgdi matseðlinum út í ystu æsar.

Í byrjun febrúar fór ég að taka inn eina töflu af Grön Te Komplex 70 á morgnana og drekka tvisvar á dag Grön Te Ekstrakt 75 með hádegismat og síðara teglasið eftir kvöldmat. Um miðjan apríl fór ég að taka inn Metasys í viðleitni mnni til að léttast.

Ég hef gefið æfingamyndböndin uppá bátinn og læt mér nú duga að ganga 4-8km á dag og synda 1km, enn sem komið er. Ég er svo nýbyrjuð á þessari "tegund" hreyfingar að árangur er ekki kominn í ljós,verði hann einhver.

Ég er orðin ansi ráðvillt með það hvað ég eigi að gera til að léttast ég er 87 kg en þegar ég hætti á Remeroninu var ég 92kg. Eru það lyfin sem "halda" mér í þessari þyngd eða er hugsanlega e-ð annað að? .Sé svo hafið þið einhverja hugmynd um hvað það er?

Með von um svar.

Bestu kveðjur

Svar:

Það er rétt hjá þér að aukin matarlyst og þyngdaaukning er algeng aukaverkun fyrir lyfið Remeron Smelt (mirtazapín). Þetta á einnig við um ýmis önnur geðlyf. Þar á meðal er lyfið Seroquel, en þyngdaraukning getur verið meðal aukaverkana þess.

Ég get þó alls ekki fullyrt neitt um það hvort þyngdaraukningin sem þú hefur orðið fyrir og hversu erfitt er að grennast aftur stafar af því eða einhverju öðru. Alla vega er mikilvægt að þú breytir ekki lyfjatökunni nema í samráði við lækninn þinn. Hann hefði ekki ávísað þér þessum lyfjum nema ástæða sé fyrir því.

Haltu endilega áfram að hreyfa þig mikið og huga að mataræðinu. Ef þú hefur áhyggjur af því að vera of þung skaltu ræða það við lækninn þinn. Hann veit manna best hvað er til ráða.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur