Þyngdist um 3 kg á mjög skömmum tíma

Spurning:

Sæl Ágústa!

Ég er 22 ára stelpa/kona. Ég hef lengi vel verið 51 kg og var ágætlega sátt við mig í þeirri þyngd. Nýlega tókst mér að þyngjast um 3 kg á mjög skömmum tíma og hef verið að reyna að losna við þau síðastliðin mánuðinn. Ég vildi bara athuga hvort það sem ég geri sé nóg til þess að létta mig. Ég hef nefnilega ekkert lést en hef þyngst ef eitthvað er. Samt sé ég alveg mun á mér, ég er öll miklu stinnari og fínni, allir vöðvar koma betur í ljós en samt er ég ekki alveg sátt, vil missa kannski 2-3kg.
Allavega. Ég á tvær spóur frá þér Fitubrennsluna og Tæbó (sem eru alveg frábærar). Ég hreyfi mig að meðaltali 6 sinnum í viku. Geri t.d alla Fitubrennslu æfinguna einn daginn og svo 20 mín í fitubrennslu + TæBó annan daginn, stundum hleyp ég hálftíma og er 10 mín á þrekhjóli, geri bara Tæbóspóluna eða hleyp bara 30 mín. Þ.e ég reyni að blanda þessu svona en er samt mest í Fitubrennsluspólunni og TæBó spólunni. Ég hef ekki breytt mataræðinu mikið en reyni að sneyða hjá fitu og sætindum. Heldur þú að þetta sé nóg til að léttast? Ætti ekki að vera kominn einhver árangur eftir mánaðar "vinnu" ? Og er eðlilegt að þyngjast þegar maður byrjar að æfa og er árangurinn kannski þegar kominn í ljós í auknum vöðamassa og minni fitu??

Með fyrifram þökk

Svar:

Sæl.

Ég sé ekki betur en að þú sért á réttri leið. Þú nefnir ekki hvað þú ert há. Þú ert mjög létt og það má vera að þú hafir aðeins bætt á þig þessum eðlilegu kílóum sem koma þegar þú breytist úr unglingi í konu. Ég myndi í þínum sporum halda áfram að vera dugleg að æfa og sneiða hjá fitu og sætindum eins og þú hefur gert. Þú ert augljóslega nú þegar farin að sjá árangur, stinnari vöðva og það má líka vel vera að með þjálfuninni hafir þú bætt við vöðvamassa og losnað við fitu og þar sem 1kg af fitu er ummálsfrekara en 1kg af vöðvum þá ertu nú komin í betra líkamlegt form og með minni líkamsfitu en áður en þú byrjaðir að æfa.

Miðað við þær upplýsingar sem þú gefur er ég sannfærð um að þú ert í fínu formi og þarft ekkert að gera annað en að halda þínu striki.

Kveðja,
Ágústa Johnson